Öryggismiðstöðin hefur nú sett í loftið farangursþjónustu sem ber heitið BagDrop. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í október er þjónustan nýjung hérlendis og sérhæfð í að sækja farangur og ferðatöskur heim til fólks og sjá um flutning þeirra á flugvöllinn sem og að innrita í flug.
„Með þessari nýju þjónustu er verið að gera ferðalagið þægilegra. Fólk getur sparað sér tíma og fyrirhöfn og farið beint í öryggisleit við komu í flugstöðina í stað þess að standa löngum stundum í biðröð í brottfararsalnum. Farangurinn er síðan endurheimtur á hefðbundinn máta á töskubelti viðkomandi flugvallar eftir lendingu á áfangastað erlendis,“ segir Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri mannaðra lausna hjá Öryggismiðstöðinni.
Samstarf við Icelandair og Play
„Við erum í samstarfi við Icelandair og Play með BagDrop. Við bjóðum nú þegar uppá Evrópu og Bandaríkin sem áfangastaði sem þjónustan er í boði fyrir hjá Icelandair en farþegar Play geta bókað þjónustuna á allra næstu vikum. Framundan er fjölgun áfangastaða og unnið er einnig að því að hægt verði að flytja sérfarangur eins og skíði og golfsett,“ bætir Ómar við.
Ómar segir BagDrop mjög trausta og örugga þjónustu. „Farangurinn er alltaf í mynd. Öryggismiðstöðin hefur í 25 ár sinnt flutningum á verðmætum ásamt því að vera eitt öflugasta þjónustufyrirtæki landsins á ýmsum sviðum þannig að við teljum okkur vel í stakk búin að sinna þessari þjónustu.“
Ómar nefnir ennfremur að það sé bæði einfalt og þægilegt að nýta sér þessa þjónustu. Fólk fer inn á vefsíðu BagDrop og velur þann tíma sem þér hentar að töskurnar verði sóttar og hefur þær svo tilbúnar ásamt flugmiðanum þegar starfsfólk BagDrop kemur að ná í þær.