Íslenska lyfjaþróunarfyrirtækið Akthelia hefur náð athyglisverðum árangri í lyfjaþróun sem byggir á rannsóknum á bakteríudrepandi peptíðum. Um er að ræða stuttar prótínkeðjur sem gegna lykilhlutverki í ónæmiskerfi mannsins.

Lyfjaþróun félagsins byggir á rannsóknum Guðmundar Hrafns Guðmundssonar, prófessors við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Félagið er með einkaleyfi á efnaflokki sem örvar meðfædda ónæmiskerfið og hefur jafnframt bólgueyðandi áhrif, sem gerir lyfin gagnleg gegn fjölbreyttum bakteríusýkingum og bólgusjúkdómum eins og Crohn’s sjúkdómnum.

Akthelia hefur sérhæft sig í þróun lyfja sem magnar þessar náttúrulegar ónæmisvarnir líkamans, og leggur sérstaka áherslu á að berjast gegn sýkingum sem fylgja krabbameinsmeðferðum.

„Helsta og alvarlegasta aukaverkunin við notkun frumudrepandi krabbameinslyfja er hætta á sýkingum, sem geta leitt til dauða á mjög skömmum tíma. Þessi krabbameinslyf ráðast á allar hratt skiptandi frumur, eins og krabbameinsfrumur, en það eru fleiri frumur í líkamanum sem skipta sér hratt, eins og blóðfrumur í beinmerg og þekjufrumur í meltingarvegi, sem eru mikilvægar fyrir ónæmiskerfið,“ segir Egill Másson, framkvæmdastjóri Akthelia.

Ef frumurnar í beinmerg og þekjufrumur í meltingarvegi verða fyrir áverkum, getur það leitt til blóðsýkinga og að lokum dauða ef ónæmiskerfið er veikt fyrir.

„Aukaverkanir krabbameinslyfjanna eru alvarlegar þar sem þau valda ónæmisbælingu, m.a. með því að draga úr hvítum blóðkornum í blóðinu, sem eru nauðsynleg til að berjast gegn sýkingum. Lyfin valda einnig skaða á þekjufrumum í meltingarveginum og það myndast sár. Bakteríuflóran í meltingarveginum getur þá lekið út í blóðið, sem leiðir til blóðsýkinga sem geta verið banvænar þegar ónæmiskerfið er of veikt til að berjast gegn þeim,“ útskýrir hann.

Bætir öryggi sjúklinga

Hann bendir á að meðferðir sem eru í boði í dag, þar á meðal að fjölga hvítkornum í blóði og að gefa sýklalyf í forvarnaskyni, hafi takmarkaða virkni og valdi læknum vonbrigðum.

„Um fimmtungur sjúklinga í krabbameinsmeðferð fær hita, sem oft er merki um sýkingu, og þrátt fyrir meðferð á sjúkrahúsi deyja 12% þeirra sem fá hita vegna blóðsýkinga. Því deyr einn af hverjum fjörutíu vegna aukaverkana krabbameinsmeðferðar, sem er óásættanlegur fjöldi.“

Akthelia stendur nú að þróun nýs lyfs sem hefur sýnt lofandi niðurstöður í rannsóknum á dýrum.

„Lyfið sem við þróum er gefið samhliða krabbameinsmeðferðum á 2-3 daga fresti, alls 3-4 sinnum, og það styrkir innbyggðar varnir í þekjunni í meltingarvegi. Það vinnur gegn þessum frumudrepandi áhrifum og kemur þannig í veg fyrir myndun sára. Við höfum sýnt fram á, í rannsóknum okkar á dýrum, að lyfið okkar getur komið í veg fyrir að bakteríur leki út í blóðið og þar með bætt öryggi og lífsgæði sjúklinga. Að auki höfum við náð eftirtektarverðum árangri með sama efni við að hraða gróanda í krónískum sárum.“

Akthelia stendur nú á tímamótum. Félagið er að hefja fjármögnunarferli til að fjármagna klínískar rannsóknir á þróun lyfsins. Það hefur sett sér það markmið að hefja rannsóknir á mönnum árið 2026, með það að markmiði að koma lyfinu á markað árið 2032.

„Við ætlum að hefja rannsóknir á heilbrigðum einstaklingum og til þess þurfum við að ljúka GLP-prófunum á næsta ári. Í augnablikinu erum við að vinna að fjármögnun þessara prófana,“ segir Egill.

Niðurstöður rannsókna félagsins síðustu átján mánuði hafa gefið vísbendingar um áhrif lyfsins á blóðsýkingar og önnur lífmerki, og hafa þegar vakið athygli fjárfesta og stórra lyfjafyrirtækja.

„Við höfum fengið jákvæð viðbrögð og jafnvel fyrirspurnir um leyfissamninga frá erlendum lyfjafyrirtækjum,“ útskýrir Egill. „Við finnum fyrir mun meiri áhuga lyfjafyrirtækja og fjárfesta á grundvelli þessara niðurstaðna sem við höfum verið að fá síðustu átján mánuðina.“

Á síðasta ári fékk Akthelia hlut í tæplega 900 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu, sem mun ekki renna til aðalverkefnisins, heldur verður beint í þróun nýrra lyfja.

„Þessi ESB-styrkur er framtíðarmúsík og veitir okkur tækifæri til að þróa nýja efnaflokka sem hafa sömu verkun en öflugri og okkar núverandi efni. Markmiðið er að beita þessum nýju efnaflokkum í baráttunni gegn sýklalyfjaþolnum bakteríum, með sérstaka áherslu á sýkingar í meltingarveginum eins og E.coli og veirusýkingar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.