Viktor Örn Andrésson og Hinrik Lárusson opnuðu Sælkerabúðina að Bitruhálsi um mitt ár 2020. Í búðinni er selt sérvalið gæðakjöt, ýmislegt meðlæti og margt fleira. Reksturinn hefur gengið vel og eins og Viðskiptablaðið greindi frá í júní síðastliðnum sömdu forsvarsmenn Hagkaupa við þá félaga um að opna útibú í Hagkaup í Kringlunni og Garðabæ.
Nú, nokkrum mánuðum seinna, hafa sérverslanir Sælkerabúðarinnar í Kringlunni og Garðabæ opnað. Viktor Örn segir að þó formleg opnun, eða „grand opening" eins og hann kallar það, verði í næstu viku þá sé nánast allt klárt. Fólk geti nú þegar farið í Kringluna og Garðabæ og keypt nánast allt það sama og fæst í versluninni að Bitruhálsi.
„Líklega erum við þegar komnir með 70 til 80% af okkar vöruúrvali inn í Hagkaup en í næstu viku verður allt komið," segir Viktor Örn.