Icelandair flutti 601 þúsund farþega í ágúst eða um 10% fleiri en í ágúst 2023. Það sem af er ári hefur Icelandair flutt 3,2 milljónir farþega, 8% fleiri en í fyrra, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Sætanýting flugfélagsins í síðasta mánuði var 86,9% og jókst hún um þrjú prósentustig á milli ára. Stundvísi var 82,8%, samanborið við 78,9% í ágúst í fyrra.
„Farþegum í ágúst fjölgaði um 10% frá sama mánuði í fyrra og er hann einn umsvifamesti mánuður okkar frá upphafi hvað farþegafjölda varðar. Við höldum áfram að finna fyrir minni eftirspurn á markaðnum til Íslands samanborið við síðasta ár en eins og sjá má á aukinni sætanýtingu höfum við bætt upp fyrir hana með því að leggja aukna áherslu á tengifarþega,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
„Þess má geta að hluti þessara farþega eru ferðamenn til Íslands þar sem 18 þúsund tengifarþegar nýttu sér Stopover vöruna okkar í ágúst, fimm þúsund fleiri en í fyrra. Þessir farþegar höfðu því viðdvöl á Íslandi í einn til sjö daga á leið sinni yfir Atlantshafið og sköpuðu þannig mikilvæg viðskiptatækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu.“
Um 33% af farþegum Icelandair í síðasta mánuði voru á leið til Íslands, 13% frá Íslandi, 50% ferðuðust um Ísland og 4% innan Íslands.