Markaðs- og tæknifyrirtækið Sahara hlaut á dögunum verðlaun Global Digital Excellence Awards í tveimur flokkum fyrir árið 2023.
Global Digital Excellence Awards eru verðlaun sem heiðra vefsíður, herferðir, verkfæri og teymi fyrir framúrskarandi árangur í hinum stafræna heimi og eru verðlaunin veitt í yfir 40 flokkum.
Sahara fékk tilnefningu í tveimur flokkum að þessu sinni og hlaut verðlaun í þeim báðum. Í flokknum PAID MEDIA CAMPAIGN OF THE YEAR lenti Sahara í öðru sæti með herferðina Life's Too Short fyrir Blue Car Rental og hlaut fyrir það silfur.
„Samstarfið við Blue Car Rental hefur gengið alveg ótrúlega vel, það hefur einkennst af gagnkvæmu trausti og metnaði allt frá fyrsta degi sem endurspeglast í þeim árangri sem við höfum nú náð. Við erum full tilhlökkunar að halda samstarfinu við Blue áfram og byggja á þeim góða grunni sem við höfum mótað saman,“ segir Andreas Aðalsteinsson, Head of Digital og partner hjá Sahara.
Í flokknum PAID SOCIAL MEDIA CAMPAIGN OF THE YEAR hlaut Sahara gullverðlaunin fyrir herferðina Keeping London Warm Since 2022 fyrir 66°Norður.
„Við höfum unnið mjög náið með 66°Norður síðastliðin fimm ár og haft umsjón með stafrænum herferðum fyrirtækisins á samfélagsmiðlum. Samstarfið hefur gengið mjög vel í alla staði og það kristallast sérlega vel í þessari herferð þar sem samspil heildarnálgunar og markaðsefnis small saman,“ segir Jón Gísli Ström, Digital Marketing Manager og partner hjá Sahara.
Meðal stofa sem einnig voru tilnefndar til verðlauna að þessu sinni má finna nokkrar margverðlaunaðar sem starfa fyrir viðskiptavini á borð við Netflix, Airbnb, Honda, Kia og kvikmyndafyrirtækið Warner Brothers.