Siðferðiseftirlit Kanada hefur hafið rannsókn á Nike í Kanada í ljósi ásakana að fyrirtækið hafi notið góðs af nauðungarvinnu Úígúra í Kína. Ásakanirnar hafa komið frá fjölmörgum mannréttindasamtökum.

Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá 2022 hafa kínversk stjórnvöld framið alvarleg mannréttindabrot gegn Úígúrum, múslímskum minnihlutahóp sem býr í Xinjiang-héraði í norðvesturhluta Kína.

Stjórnvöld hafa meðal annars skikkað Úígúra í nauðungarvinnu og segja mannréttindasamtök að fjölmörg alþjóðleg fyrirtæki hafi hagnast á þeirri vinnu. Samkvæmt skýrslu frá Australian Strageic Policy Institute frá 2020 hafa rúmlega 80.000 Úígúrar verið sendir í nauðungarvinnu í verksmiðjum víðs vegar um Kína.

Kanadísku mannréttindasamtökin Core segja að Nike Canda Corp hafi viðhaldið samböndum við kínverska birgja sem notast við slíka nauðungarvinnu. Nike hefur hins vegar sagt að búið sé að slíta öll tengsl við fyrirtæki sem sökuð eru um að hagnast á nauðungarvinnu.

Skýrslan sem áströlsku samtökin sendu frá sér sögðu hins vegar að Nike hafi ekki gripið til neinna áþreifanlegra ráðstafana til að tryggja að vörur þeirra væru ekki bendlaðar við nauðungarvinnu og hafnaði Nike meðal annars beiðni um fund með talsmönnum samtakanna.