Fjártæknifyrirtækið Aurbjörg hefur sett í loftið nýja lausn sem sameinar greiðslugetu, uppsafnaðan sparnað og fasteignaleit.
Aurbjörg segir í tilkynningu að Íslendingar hafi löngum haft gaman af því að skoða fasteignir og láta sig dreyma um framtíðina, en hefðbundnar fasteignaleitasíður veiti oft ekki heildrænar upplýsingar um hvernig fjármagna eigi kaupin.
Að loknum notendaprófunum hafi fjártæknifyrirtækið komist að því að tengingu vanti á milli fasteignaleitar, útborgunar í eign og lánamöguleika. Það torveldi samanburð á eignum og geri það að verkum að einstaklingar gera tilboð í eignir sem þeir hafa ekki efni á og aðrir missi af eignum sem þeir hafa efni á.
Eignavaktin birtir notendum lista yfir hentugar eignir, niðurstöðu bráðbirgðagreiðslumats, áætlaðar mánaðargreiðslur lána og áætlað verðmat hverrar eignar. Þar að auki fá notendur Aurbjargar tilkynningar þegar nýjar eignir, sem passa þeirra leitarskilyrðum, koma á markað.
„Við viljum gera fasteignakaup einfaldari og markvissari,“ segir Ásdís Arna Gottskálksdóttir, framkvæmdastjóri Aurbjargar.
„Með Eignavaktinni gefum við notendum okkar aðgang að öflugustu fasteignaleit landsins sem tekur tillit til fjárhagsstöðu þeirra og hjálpar þeim að finna draumaeignina. Þetta er öflug og upplýsandi vara sem allir fasteignakaupendur ættu að nýta sér.“