Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað fyrir tveimur vikum að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%. Þetta var önnur vaxtaákvörðunin í röð þar sem nefndin hélt vöxtum óbreyttum.
Í yfirlýsingu nefndarinnar sagðist hún hafa ákveðið að halda vöxtum óbreyttum vegna þeirrar óvissu sem ríkir um efnahagsleg áhrif jarðhræringa á Reykjanesi. Nefndin sagði hins vegar að verðbólguhorfur hefðu versnað samkvæmt nýrri spá bankans og spennan í þjóðarbúinu hafi reynst meiri en áður var talið.
Í fundargerð nefndarinnar, sem birt var klukkan fjögur í dag, kemur fram að allir fimm nefndarmenn hafi verið sammála um að halda vöxtum óbreyttum.
„Fram kom í umræðunni að talsverð óvissa stafaði af þessum jarðhræringum hvað varðaði áhrif á efnahagslífið, þá sérstaklega í tengslum við ríkisfjármál, ferðaþjónustu, húsnæðismarkaðinn og þar með á verðbólguhorfur, eftir því hvernig atburðarásin þróast. Taldi nefndin því rétt að staldra áfram við og sjá hverju fram vindur,“ segir í fundargerðinni.
Ásgerður Ósk Pétursdóttir, sem tók sæti í peningastefnunefndinni í febrúar, sagði í viðtali í Viðskiptablaðinu í síðustu viku næsta víst að hún hefði kosið að hækka stýrivexti á síðasta fundi nefndarinnar ef ekki hefði komið til jarðhræringanna.
Voru síðast öll sammála í mars
Um er að ræða fyrsta skiptið frá því í mars síðastliðnum sem allir nefndarmenn studdu tillögu Ásgeirs Jónssonar.
Við vaxtaákvörðun nefndarinnar í október vildu Ásgerður Ósk Pétursdóttir og Herdís Steingrímsdóttir fremur hækka stýrivexti um 25 punkta fremur en að halda þeim óbreyttum.
Á fundum nefndarinnar í ágúst og maí greiddi Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, gegn tillögu seðlabankastjóra en hann vildi í báðum tilfellum hækka stýrivexti minna en aðrir nefndarmenn.
Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans er boðuð þann 7. febrúar næstkomandi.