Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í byrjun mánaðarins að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig, úr 5,5% í 5,75%. Í fundargerð nefndarinnar, sem var birt í dag, kemur fram að allir nefndarmenn studdu tillögu Ásgeirs Jónssonar um 25 punkta hækkun.

Nefndarmenn töldu að bæði væru rök fyrir að halda meginvöxtum óbreyttum eða hækka þá um 0,25-0,5 prósentur.

„Nefndarmenn voru sammála um að skýrari vísbendingar hefðu komið fram milli funda um að vaxtahækkanir undanfarin misseri hefðu hægt á vexti almennrar eftirspurnar og umsvifum á húsnæðismarkaði,“ segir í fundargerðinni.

Hins vegar hafi undirliggjandi verðbólga aukist á milli funda „sem gæti bent til þess að verðbólguþrýstingur væri enn vanmetinn“. Vísbendingar séu um að verðbólguvæntingar séu farnar að lækka á ný en eru enn yfir verðbólgumarkmiði bankans.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, þótti áhugavert að peningastefnunefndin hafi rætt um að halda vöxtum óbreyttum. Í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar sagði Greining Íslandsbanka, sem Jón Bjarki fer fyrir, að hún teldi líklegt að vaxtahækkunarferli Seðlabankans væri nú lokið, „að minnsta kosti í bili“.