Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Sam kaupa, segir að í verslananeti fyrirtækisins og öflugu vildarkerfi felist mikil tækifæri til vaxtar á næstu árum.
Samkaup reka stærsta net verslana á landsvísu, en þær eru ríflega sextíu talsins og er að finna um allt land. Það fylgja því vissulega áskoranir að standa í verslanarekstri í fámennari byggðum landsins, en Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, segir að í þessu neti verslana og vöruflutninga felist líka mikil tækifæri.
„Í umræðu um verslanarekstur á landsbyggðinni hættir fólki til að ræða aðeins um áskoranirnar, sem eru helst hár flutningskostnaður og sveiflu kenndur rekstur, en þessar verslanir eru margar háðar viðskiptum við erlenda ferðamenn yfir sumartímann. Veltan í þessum verslunum er mun meiri á sumrin en veturna. Þetta eru áskoranir sem flestar dagvöruverslanir treysta sér ekki til að takast á við og að vissu leyti er það skiljanlegt, miðað við þeirra rekstrarmódel.“
Gunnar segir að viðskiptavinir matvöruverslana séu alltaf meðvitaðir um verð, en að síðustu misseri hafi krafan um aðhald í verðlagningu orðið ríkari.
„Við settum okkur það markmið að verðlag í Nettó myndi lækka til jafns við helstu keppinauta okkar, en einnig að lækka verulega verð í verslunum Kjörbúðanna, sem eru verslanir okkar á landsbyggðinni. Við kappkostum að koma til móts við þarfir viðskiptavina okkar að því marki sem okkur er framast unnt. Þetta hefur kallað á aðhalds aðgerðir á kostnaðarhliðinni og bitið í afkomu fyrirtækisins til skemmri tíma, en við erum farin að sjá árangur í aukinni vörusölu í verslunum Nettó og í öðrum verslunum samstæðunnar.“
Stærsta vildarkerfið
Hann segist sjá veruleg tækifæri til vaxtar á næstu árum, tækifæri sem séu til komin vegna tveggja atriða sem greina Samkaup frá samkeppninni.
„Í fyrsta lagi höfum við byggt upp stærsta vildarkerfi á dagvörumarkaðnum síðustu árin með yfir 80.000 vildarvinum. Vildarvinir fá inneign af öllum sínum viðskiptum og aðgang að sértilboðum í hverri viku. Með þessu bjóða Nettó verslanir lægsta verð á landinu á helstu heimilisvörum og verslanir okkar á landsbyggðinni bjóða vildarvinum sínum lágvöruverð á helstu nauðsynjavörum. Stefnan er að breikka vildarkerfi okkar enn frekar til hagsbóta fyrir neytendur um allt land. Það eru gríðarleg tækifæri fólgin í þessu kerfi okkar og í tækninni sem það byggir á.“
En ekki síður sér Gunnar tækifæri til vaxtar með því að nýta staðsetningar verslana fyrirtækisins undir fjölþættari starfsemi.
„Við erum í algerri sérstöðu hvað varðar staðsetningu verslana okkar á landsvísu, þar sem við höfum frábært starfsfólk með mikla reynslu og ríka þjónustulund. Það eru því gríðarlegir möguleikar fólgnir í að byggja upp, eða samþætta með öðrum hætti, annan rekstur með dagvöruversluninni.
Með því að fjölga tekjustoðum fyrirtækisins og færa okkur yfir í fleiri neytendavörumarkaði en bara dagvöruna tel ég að við eigum vel að geta tvöfaldað veltu fyrirtækisins á tiltölulega skömmum tíma. Meðal þess sem við höfum til skoðunar eru hraðhleðslustöðvar, lyfsala og aukið vöruúrval í sérvöru flokkum.“
Samkaup hafa ekki farið af stað með áfengissölu í sínum verslunum.
„Þetta er allt mjög áhugavert sem er að gerast hvað varðar áfengið, en það verður ekki hjá því horft að lagaumhverfið er ekki skýrt. Það væri óskandi að löggjafinn tæki af skarið með þetta í eitt skipti fyrir öll. Hins vegar munum við hreinlega ekki geta setið ein eftir ef fleiri verslanir fylgja fordæmi markaðarins eftir hvað þetta varðar.“