Gengi bréfa breska lúxusvörumerkisins Burberry hækkaði um allt að 8% í byrjun vikunnar í kjölfar fregna þess efnis að ítalska lúxusvörumerkið Moncler væri að íhuga að gera yfirtökutilboð í félagið.

Moncler, sem er þekkt fyrir „puff“ jakkana sína, tilkynnti síðastliðna helgi að það hygðist ekki tjá sig um „óstaðfestar fregnir“ um hugsanleg kaup á Burberry. Burberry hefur átt í nokkrum erfiðleikum á árinu, og gengi bréfa félagsins lækkað um 40% það sem af er ári.

Félagið greiðir ekki arð til hluthafa á árinu og gaf út afkomuviðvörun síðastliðið sumar. Félagið birtir uppgjör fyrir fyrstu sex mánuði ársins í næstu viku. Markaðsaðilar telja ólíklegt að það verði úr mögulegum samruna Burberry og Moncler.