Samruni Haga hf, Regins hf, KLS ehf og Klasa ehf er nú kominn til framkvæmda, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þann 3. desember 2021 var tilkynnt um undirritun samnings Haga hf., Regins hf., og KLS eignarhaldsfélags ehf. um áskrift að hlutafé í fasteignaþróunarfélaginu Klasa ehf.

Samningarnir voru undirritaðir með fyrirvara um samþykki SKE en þann 10. júní 2022 var undirrituð sátt á milli Haga og SKE um skilyrði fyrir kaupunum.

Þau skilyrði sem Hagar skuldbundu sig til að hlíta voru eftirfarandi:

  • Tilkynningarskylda Haga til Samkeppniseftirlitsins vegna samninga um kaup eða leigu Haga á eignum undir dagvöruverslanir sem verða þróaðar og byggðar undir stjórn Klasa eða Regins.
  • Tilkynning skal berast Samkeppniseftirlitinu innan fimm virkra daga frá því að bindandi samningur kemst á milli aðila.
  • Högum er heimilt að óska eftir endurupptöku eða endurskoðun sáttarinnar að þremur árum liðnum frá framkvæmd samrunans.

Sjá einnig: Hagar og Reginn fá að kaupa í Klasa

Gert er ráð fyrir að fjárhagsleg áhrif viðskiptanna komi fram á öðrum ársfjórðungi 2022-23, en áætluð áhrif vegna söluhagnaðar eigna á hagnað Haga eftir skatta eru um 750 milljónir kr.

Áhrif viðskiptanna á hagnað fyrir skatt hjá Regin voru 651 milljónir króna og komu þau að fullu fram í virðismati fjárfestingareigna 30. júní 2022.