Samkeppniseftirlitið hefur heimilað áformaðan samruna Orkunnar og Samkaupa, sem rekur verslanir m.a. undir merkjum Nettó.

Eftirlitið lauk rannsókninni í fyrsta fasa og taldi gögn og upplýsingar málsins ekki benda til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist, eða samkeppni sé að öðru leyti raskað með umtalsverðum hætti.

Nú eru öll skilyrði kaupsamninga Orkunnar við hluthafa Samkaupa uppfyllt, að því er kemur fram í tilkynningu Skeljar fjárfestingafélags, móðurfélags Orkunnar, til Kauphallarinnar. Gert er ráð fyrir að uppgjör viðskipta fari fram föstudaginn 18. júlí.

Skel hyggst gera nánar grein fyrir samrunanum, framtíðarsýn sameinaðs félags og vegferð á skipulegan verðbréfamarkað í fjárfestakynningu með hálfsársuppgjöri fjárfestingafélagsins um miðjan ágústmánuð.

Skel tilkynnti þann 22. maí sl. um undirritun kaupsamnings um kaup Orkunnar á öllum 53,1% hlut Kaupfélags Suðurnesja í Samkaupum. Kaupverðið verður greitt með afhendingu á nýju hlutafé í Orkunni.

Samkaup er metið á 5,6 milljarða króna í viðskiptunum. Verðmæti hlutabréfa Orkunnar við uppgjör viðskiptanna verður 10,7 milljarðar króna‏.

Tekið var fram að samningurinn geri ráð fyrir að samstæða félaganna verði mynduð með sambærilegu sniði og skráð smásölufyrirtæki hérlendis.

Fyrir mánuði síðan tilkynnti Skel um að hluthafar að samtals 98,5% hlut í Samkaupum hefðu undirritað kaupsamning um kaup Orkunnar á Samkaupum.

Íslandsbanki hefur samþykkt að veita sölutryggingu um áskrift að nýju hlutafé í Orkunni, eða nýju móðurfélagi samstæðu, að verðmæti a.m.k. 2.000 milljónir króna sem skal nýtt til að efla fjárhagsstöðu Samkaupa.