Sam­skip hefur á­kveðið að fara í bóta­mál gegn Eim­skipi vegna „ó­lög­mætrar og sak­næmrar“ at­hafna skipa­fé­lagsins gagn­vart sér.

Líkt og Við­skipta­blaðið hefur fjallað um síðustu daga hafa for­svars­menn Sam­skipa og lög­menn fé­lagsins sakað Eim­skip um falska játningu er fé­lagið játaði sam­ráðs­brot á árunum eftir hrun.

„Fyrir liggur að Eim­skip hefur í sátt við Sam­keppnis­eftir­litið (SKE) lýst því yfir að fé­lagið hafi átt í sam­ráði við Sam­skip sem efnt hafi verið til á fundi 6. júní 2008 og í fram­haldi þess fundar,“ segir í frétta­til­kynningu frá Sam­skip.

„Þessi yfir­lýsing fé­lagsins er röng og með öllu til­hæfu­laus. Þá er það að sama skapi full­kom­lega rangt að fé­lögin hafi átt í sam­ráði um breytingar á flutninga­kerfi, gert með sér sam­komu­lag um skiptingu markaða, um á­lagningu gjalda eða um af­sláttar­kjör,“ segir þar enn fremur.

Í and­mæla­skjölum Sam­skipa við frum­niður­stöðum SKE í málinu segir að til­vitnaður fundur forsvars­manna fé­laganna kom til vegna þess að eig­endur Samskipa höfðu orðið þess áskynja að Eim­skip stóð höllum fæti eftir miklar offjár­festingar á árunum á undan.

„Mark­mið eig­enda Sam­skipa með fundinum var að kanna hvort vilji stæði til þess innan Eim­skips að selja Sam­skipum eignir, nánar til tekið finnska gáma­flutninga­fé­lagið Conta­iners­hips og hollenska frystigeymslufyrirtækið Daali­mpex. Fundurinn var stuttur og árangurslaus. Önnur málefni voru ekki rædd á fundinum,“ segir í and­mælum.

Sam­keppnis­eftir­litið lagði engu að síður 4,2 milljarða króna stjórn­valds­sekt á Sam­skip vegna meints sam­ráðs án þess þó að gögn eða vitnis­burðir sýndu fram á að sam­ráð hafi verið rætt á fundinum.

Eim­skip gerði sátt í málinu árið 2021 og lagði engin gögn fram til að styðja við játningu sína og greiddi fé­lagið 1,5 milljarð krónur í sekt.

Alvarleg atlaga Eimskips að Samskipum

„Um er að ræða mjög al­var­lega at­lögu að Sam­skipum enda hefur Eim­skip með þessu rang­lega sakað fé­lagið, sem og nú­verandi og fyrr­verandi starfs­menn fé­lagsins og Eim­skips, um ó­lög­mæta og eftir at­vikum refsi­verða hátt­semi. Rangar sakar­giftir af þessum toga eru ó­lög­mætar og þær geta einnig verið refsi­verðar fyrir þann sem í hlut á. Í þessu til­viki var þeim beint að helsta keppi­nauti Eim­skips og voru aug­ljós­lega til þess fallnar að valda bú­sifjum í rekstri fé­lagsins og hafa ó­eðli­leg á­hrif á sam­keppnis­stöðu fé­laganna, Sam­skipum til tjóns,” segir í til­kynningu Sam­skipa en Eim­skip er markaðs­ráðandi aðili í skipa­flutningum við Ís­lands­strendur.

Lög­menn Sam­skipa hafa sent for­stjóra Eim­skips kröfu­bréf vegna framan­greinds þar sem þess er einnig óskað að upp­lýst verði hvaða stjórn­endur eða stjórnar­menn komu að á­kvörðun um að undir­gangast sáttina við SKE og veita stjórn­valdinu með því rangar upp­lýsingar.

Sam­skip hafa jafn­framt skilað inn kæru til á­frýjunar­nefndar sam­keppnis­mála vegna á­kvörðunar eftir­litsins í lok ágúst um að leggja á 4,2 milljarða króna sekt á fé­lagið fyrir þátt­töku í meintu sam­ráði við Eim­skip.

Farið er fram á að á­kvörðun SKE verði felld úr gildi og að réttar­á­hrifum hennar verði frestað á meðan málið er til með­ferðar hjá á­frýjunar­nefndinni.

„Sam­skip gagn­rýna harð­lega á­kvörðun Sam­keppnis­eftir­litsins enda er hún efnis­lega röng og öll máls­með­ferðin í brýnni and­stöðu við á­kvæði sam­keppnis­laga, sönnunar­reglur og fjöl­margar grund­vallar­reglur stjórn­skipunar- og stjórn­sýslu­réttarins. Fé­lagið telur ljóst að fella verði hina kærðu á­kvörðun úr gildi í heild sinni vegna þessara al­var­legu ann­marka sem leitt hafi til endur­tekinna rangra og hald­lausra á­lyktana stofnunarinnar,“ segir Hörður Felix Harðar­son, lög­maður Sam­skipa.

Í kærunni er bent á að rann­sókn og á­kvörðun SKE sé for­dæma­laus fyrir margar sakir.

„Þær kenningar og á­lyktanir sem settar eru fram í á­kvörðun SKE séu í grund­vallar­at­riðum án tengsla við gögn málsins og raun­veru­leg at­vik í rekstri skipa­fé­laganna sem sökuð séu um sam­ráð. Þá hafi SKE endur­tekið mis­farið með efni gagna og horft fram hjá sönnunar­gögnum og rétt­mætum skýringum Sam­skipa og Eim­skips sem ekki hafi fallið að kenningum stofnunarinnar. Þá er með sektar­fjár­hæðinni farið gegn fjöl­mörgum réttar­reglum og ljóst að til grund­vallar þeirri á­kvörðun liggja engin mál­efna­leg sjónar­mið,“ segir að lokum í til­kynningu Sam­skipa.