„Það má segja að nú séum við séum komnir hinum megin við borðið,“ Ólafur Stefán Sveinsson, einn þremenninganna sem hafa undirritað samning um kaup á Pennanum Eymundsson og öllu tilheyrandi. Hinir eru Stefán D. Franklín, endurskoðandi um margra ára skeið, m.a. hjá Deloitte, og Ingimar Jónsson, fyrrverandi forstjóri Kaupáss. Ólafur vísar til þess að hann og Ingimar hafi rekið fasteignafélög en ekki verið í beinum verslanarekstri um nokkurt skeið.
Það er Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, sem selur ritfangaverslunina. Samkeppniseftirlitið á eftir að gefa samþykki sitt fyrir kaupunum. Kaupverð er trúnaðarmál.
Þremenningarnir hafa allir tengsl við Gunnar Dungal, fyrrverandi eiganda Pennans. Ingimar var fjármálastjóri fyrirtækisins þegar Gunnar átti fyrirtækið og var Stefán endurskoðandi þess á sama tíma. Gunnar var svo ráðgjafi þremenninganna í fyrirtækjakaupunum ásamt Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans.
Penninn tekinn yfir í mars 2009
Gunnar Dungal seldi Pennann hópi fjárfesta undir forystu Kristins Vilbergssonar í júní árið 2005. Fram kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis að skuldbindingar fyrirtækisins gagnvart Kaupþingi hafi í október árið 2008 numið 11,1 milljarði króna. Fyrirtækið átti þegar mest lét verslunina Saltfélagið og kaffihúsakeðjuna Te og Kaffi. Þá átti Penninn helmingshlut í Habitat á Íslandi, meirihluta í húsgagnafyrirtækinu Coppa í Lettlandi, rekstrarvörukeðjuna Daily Service í Eystrasaltsríkjunum og kaffiframleiðandann Melna Kafija í Lettlandi. Eignarhaldið var skráð hér á landi og í Lúxemborg. Fram kemur í Rannsóknarskýrslunni að félög Pennans hafi virst í mikilli fjárþörf undir lokin og ekki haft neina burði til að standa við skuldbindingar sínar við Kaupþing og Sparisjóðabankann. Á endanum tók Nýja Kaupþing eignarhaldið yfir í mars árið 2009.
Með formann skilanefndar í stjórn
Ólafur og Ingimar hafa rekið um nokkurra ára skeið fasteignafélögin Nafir og Summit og er Ingimar framkvæmdastjóri félaganna. Á meðal eigna félagsins eru Hótel Arctic Comfort í Síðumúlanum, Hlíðarsmári 1 þar sem Atorka Group var til húsa og húsnæði húsgagnaframleiðandans GKS. GKS er í eigu Gunnars Dungal. Hann er jafnframt stjórnarmaður í Summit. Á meðal stjórnarmanna í Nöfum í lok árs 2010 var Lárentsínus Kristjánsson, þá formaður skilanefndar Landsbankans.
Reiddu fram tæpar 300 milljónir
Eigið fé Nafa var á sama tíma neikvætt um 662 milljónir króna. Skuldir námu rétt rúmum 2,4 milljörðum króna. Þar af námu langtímaskuldir við lánastofnanir rúmum 2,3 milljörðum króna. Á móti skuldum voru fasteignir og lóðir veðsettar. Fram kemur í ársreikningi Nafa fyrir árið 2010 að í árslok hafi bókfært verð veðsettra eigna numið 1.580 milljörðum króna og eftirstöðvar áhvílandi lána numið tæpum 2,4 milljörðum. Vegna óvissu á leigumarkaði og óvissu með forsendur útreiknings á gangvirði fjáfestingaeigna hafi stjórnendur ekki látið framkvæma slíkt mat á árinu. Ef slíkt mat hefði verið framkvæmt verður að teljast líklegt að virði fjárfestingaeigna félagsins hefði verið lægra en bókfært virði þeirra í ársreikningi.
Á sama tíma var eigið fé Summit neikvætt um rúmar 184 milljónir króna. Félagið skuldaði á sama tíma tæpa 1,2 milljarða króna. Þar af var tæpur milljarður gagnvart lánastofnunum.
Skuldir beggja félaga voru í erlendum myntum í lok árs 2010.
Í fyrirvara endurskoðenda beggja félaga er rekstrarhæfi félaganna dregið í efa að tilskyldum ákveðnum fyrirvörum, svo sem auknu hlutafé, auk þess sem viðræður við viðskiptabanka félaganna voru sagðar í gangi. Ekki er að sjá af ársreikningum hver viðskiptabankinn fasteignafélaganna er.
Eigendur Nafa og Summit reiddu fram verulegar fjárhæðir í því skyni að koma félögunum á réttan kjöl. Hlutafé Summit, sem í dag heitir PN-29, var aukið um 250 milljónir króna í janúar á þessu ári og var 400 milljónir eftir það en hlutafé Nafa var aukið um 20 milljónir í maí í fyrra og varð eftir það 100 milljónir króna.