Samsung seldi 60 milljónir snjallsíma á fyrstu þremur mánuðum ársins. Salan dróst saman um 1% samanborið við sama tímabil í fyrra en þrátt fyrir það hefur Samsung á nýjan leik tekið framúr Apple sem stærsti farsímaframeiðandinn.

Apple hafði tekið toppsætið á síðasta ári. Financial Times greinir frá þessu. Samsung, sem kynnti nýjan Galaxy S24 síma í janúar, er nú með 23% markaðshlutdeild á heimsvísu en Apple, sem seldi 50 milljónir iPhone á fyrstu þremur mánuðum ársins, er með 21% markaðshlutdeild. Salan á iPhone dróst saman um 10% samanborið við fyrstu þrjá mánuði ársins 2023.

Mesti vöxturinn á snjallsímamarkaðnum er hjá kínverskum framleiðendum. Hjá Xiaomi jókst salan um 34% á milli ára og er fyrirtækið nú með 14% markaðshlutdeild. Vöxtur kínverska fyriræksins Transsion er hins vegar mjög mikill. Sala fyrirtækisins, sem framleiðir síma undir merkjunum Tecno, Itel og Infinix og er gríðarlega vinsælir í Afríku, jókst um 85% milli ára.