Samsung Electronics hefur landað 16,5 milljarða dala samningi við Tesla sem felur í sér að suður-kóreska félagið muni framleiða næstu kynslóð af sérsniðnum gervigreindarörgjörvum fyrir rafbílaframleiðandann.

Virði samningsins samsvarar 7,6% af tekjum Samsung í fyrra. Hlutabréfaverð Samsung hækkaði um 6,8% í morgun.

Hinn átta ára samningur, sem Samsung hefur tilkynnt formlega um og Elon Musk, forstjóri Tesla, staðfesti á samfélagsmiðlinum X í dag, er sá stærsti sem örgjörvarhluti Samsung-samstæðunnar hefur gert við einn viðskiptavin, að því er segir í frétt Financial Times.

Musk sagði í færslu á X að Samsung muni framleiða næstu kynslóðar A16 örgjörva Tesla í nýrri verksmiðju í Texas, sem er hluti af 40 milljarða dala fjárfestingum suður-kóreska fyrirtækisins í Bandaríkjunum. Umrædd fjárfesting er studd af niðurgreiðslum bandarískra stjórnvalda í tengslum við CHIPS and Science löggjöf sem var innleidd af ríkisstjórn Joe Biden.

Telsa mun m.a. nýta A16 örgjörvann fyrir sjálfkeyrandi bíla sem rafbílaframleiðandinn er með í þróun.