Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitunnar hefur verið með áformaða hlutafjáraukningu, sem felur í sér að auka hlutafé um allt að þriðjung með aðkomu nýrra fjárfesta, í undirbúningi í meira en tvö ár.

Endanlegt samþykki frá eigendum Orkuveitunnar – Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð – fékkst í maí 2023 og gildir sú heimild til áramóta. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka er ráðgjafi Ljósleiðarans við hlutafjáraukninguna.

Ekki er komin niðurstaða í ferlið og tilkynnt var í síðustu viku um að nú sé verið að endurskoða áformin.

Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segir að Ljósleiðarinn og Orkuveitan eigi samtal framundan við eigendur félagsins um næstu skref en ekkert liggi fyrir í þeim efnum.

Erlendir fjárfestar áhugasamir

Spurður um hvort félagið hafi fundið fyrir áhuga í ferlinu, þá segir Einar að Ljósleiðarinn hafi átt góða kynningarfundi með innlendum og erlendum fjárfestum í lok síðasta árs.

Erlendir fjárfestar hafi sýnt félaginu sérstaklega áhuga og tók Ljósleiðarinn í kjölfarið þónokkra fundi með erlendum aðilum.

„Sú endurgjöf sem við fengum var að það er eftirsóknarvert að fjárfesta í ljósleiðarafyrirtækjum sem eru ekki á fyrstu stigum fjárfrekrar uppbyggingar og komin með öflugt tekjustreymi.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaði vikunnar.