Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, telur Ríkisendurskoðun vega að starfsheiðri sínum með framgöngu sinni vegna beiðni Viðskiptablaðsins um að fá greinargerð Sigurðar um málefni Lindarhvols afhent.
Nokkur leynd hefur ríkt um greinargerð Sigurðar, sem hefur ekki enn verið birt opinberlega, en Viðskiptablaðið hefur frá árinu 2019 reynt að fá hana afhenta. Hefur Ríkisendurskoðun meðal annars sagt að verði greinargerðin opinberuð gæti það skapað ríkinu bótaskyldu.
Vegið að starfsheiðri
Í bréfi sem forseta Alþingis, Birgi Ármannssyni, barst í lok maí síðastliðins frá Sigurði óskar hann eftir því að vera upplýstur um efni erindis Ríkisendurskoðunar frá því í apríl 2022 sem varði embættisfærslur hans. Í erindinu tekur Ríkisendurskoðun afstöðu til þeirrar ákvörðunar forsætisnefndar Alþingis að Viðskiptablaðinu yrði veittur aðgangur að greinargerð Sigurðar.
Í bréfi sínu rifjar Sigurður upp að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem hann lesi um bréfaskrif Ríkisendurskoðunar og forsætisnefndar Alþingis er varði störf hans sem settur ríkis endurskoðandi í málefnum Lindarhvols án þess að honum hafi samtímis verið kynnt efni og ástæður skrifanna. Þá vísar hann í frétt Viðskiptablaðsins frá 24. september 2020, þar sem vitnað er í umsögn ríkisendurskoðanda til forsætisnefndar Alþingis vegna kæru Viðskiptablaðsins um aðgang að téðri greinargerð: „Ríkisendurskoðandi [Skúli Eggert Þórðarson] telur að það gæti valdið íslenska ríkinu bótaskyldu að gera opinbera greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, ad hoc ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols sem send var Alþingi í júlí 2018. Greinargerðin innihaldi staðreyndavillur og missagnir sem gætu, auk bótaskyldunnar, skaðað hagsmuni ríkisins með ýmsum hætti.“ Þarna telur Sigurður ríkisendurskoðanda vega alvarlega að faglegum starfsskyldum og starfsheiðri sínum sem opinbers starfsmanns til nær 30 ára. Þá ítrekar hann ósk sína um að fá afrit af gögnum sem styðji við þær fullyrðingar sem ríkisendurskoðandi hafi viðhaft um störf hans í umsögn sinni til forsætisnefndar Alþingis.
Rýra eigi trúverðugleikann
Í samtali við Viðskiptablaðið segir Sigurður þetta vera dæmigert mál þar sem farið sé í manninn en ekki efnið. Hann telur að rýra eigi trúverðug-leika sinn og vega að starfsheiðri sínum til að koma í veg fyrir að greinargerðin verði birt. „Það er orðið aumt þegar stjórnvöld leyfa sér að reka mál með þessum hætti. Mér leikur forvitni á að vita hvað það er í greinargerðinni sem menn vilja ekki að birtist. Ég hef alltaf litið á mig sem opinberan starfsmann sem gæti sem slíkur hagsmuna ríkisins, ekki neinna annarra,“ segir Sigurður.