Reykjavíkurborg hefur birt sáttmála nýs meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar á heimasíðu sinni. Þar kemur meðal annars fram að borgin ætli að flýta uppbyggingu Keldnalands, lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í lok kjörtímabils og „virða alla samninga Reykjavíkurborgar og ríkisins um innanlandsflug“. Útsvar verður óbreytt og borgin mun því áfram nýta sér hámarksheimild útsvars.
Húsnæðismálin voru mikið til umræðu í aðdraganda sveitarstjórnakosninganna. Meirihlutinn segist ætla að ráðast í húsnæðisátak og úthluta lóðum í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, á Hlíðarenda, í Gufunesi og á Ártúnshöfða.
„Við viljum flýta uppbyggingu Keldnalands og Keldnaholts og flýta til þess uppbyggingu Borgarlínu í samræmi við samning við Betri samgöngur,“ segir í sáttmálanum. Dagur B. Eggertsson hefur til þessa gagnrýnt hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um að flýta uppbyggingu á Keldnalandi og haldið því fram að Miklabraut myndi ekki ráða við umferðina sem myndi fylgja þessu hverfi.
Reykjavíkurborg hyggst áfram fylgja viðmiðum aðalskipulags um að 5% nýrra íbúða verði félagslegar íbúðir og 20% aðrar íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna félaga.
Samningur um flugvöllinn virtur
Ágreiningur hefur verið uppi á milli Reykjavíkurborgar og innviðaráðuneytisins vegna Reykjavíkurflugvallar og íbúðabyggð í Skerjafirði. Isavia hefur varað við því að fyrirhugað íbúðahverfi í Skerjafirði skapi hættu vegna sviptivinda. Innviðaráðherra neitaði borginni um að byggja í Skerjafirði sökum þess að ekki hafi verið fundinn nýr flugvallarkostur og vísaði til samkomulags um að kanna fýsileika flugvallar í Hvassahrauni.
„Við ætlum að virða alla samninga Reykjavíkurborgar og ríkisins um innanlandsflug, Reykjavíkurflugvöll og flutning flugvallarins í Hvassahraun á grundvelli veðurfarsrannsókna,“ segir í sáttmálanum.
„Við viljum byggja nýtt hverfi í Skerjafirði, taka tillit til Reykjavíkurflugvallar á byggingartíma þess og taka tillit til faglegs áhættumats og mótvægisaðgerða vegna vindafars sem útfærðar verða í samvinnu við Isavia. Tekin verði afstaða til landfyllingar og útfærslu hennar á grundvelli yfirstandandi umhverfismats.“
Ráðast í umhverfismat Sundabrautar
Nokkuð var rætt um Sundabraut í aðdraganda kosninga. Meirihlutinn segist ætla að að fylgja eftir samkomulagi ríkis og borgar frá 2021 um gerð Sundabrautar.
„Ráðist verður í gerð umhverfismats, hafist handa við víðtækt samráð, og nauðsynlegar skipulagsbreytingar vegna Sundabrautar undirbúnar.“
Sjá einnig: Allt að 238 milljarða ábati af Sundabraut
Meirihlutinn ítrekar þó að leggja þurfi áherslu á að Sundabraut nýtist öllum ferðamátum, skoða þurfi loftslagsáhrif framkvæmdarinnar, áhrif hennar á nærliggjandi byggð og rýna mögulegar mótvægisaðgerðir.
1% hagræðing
Í umfjöllun um atvinnulífið segist meirihlutinn vilja einfalda ferla og leyfisveitingar sem snúa að stofnun og rekstri fyrirtækja. Straumlínulaga eigi alla þjónustu og leyfisgjöld af hendi borgarinnar.
Sérstaklega er rætt um nýsköpunarstefnu, sem felur meðal annars í að styðja við þekkingarþorp og Vísindagörðum. Einnig sé vilji til að efla samstarf við rekstraraðila í ferðaþjónustu með stofnun áfangastaðar- og markaðsstofu ásamt sveitarfélögum á svæðinu.
„Við viljum tryggja gott framboð atvinnulóða og finna léttri iðnaðarstarfsemi stað. Við viljum kortleggja eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði og skapandi samvinnurýmum og styðja við slíka uppbyggingu í takt við þörf í blandaðri byggð í hverfum.“
Í síðustu viku birti Þjóðskrá um hækkun fasteignmats. Samkvæmt úttekt Félags atvinnurekenda mun hækkunin hafa að óbreyttu í för með sér að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hækki um rúma þrjá milljarða króna og verða um 31,7 milljarðar. Nokkur sveitarfélög hafa brugðist við og boðað lækkun álagsprósentu fasteignaskattanna. Nýi meirihlutinn segist ætla að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði en þó ekki fyrr en í lok kjörtímabils.
Sjá einnig: Þrír milljarðar aukalega í fasteignaskatta
Þegar kemur að fjármálum borgarinnar segist meirihlutinn ætla að hafa ráðdeild í rekstri og „vandaða fjárhagsáætlunargerð í fyrirrúmi og ráðast í skoðun varðandi bestu fyrirmyndir, innanlands sem utan, í þeim efnum“.
Flokkarnir segjst ætla að hagræða í rekstri og sameina einingar. „Við ætlum að halda áfram 1% hagræðingu innan kerfis. Við ætlum að sameina málaflokka íþrótta og menningar í einu sviði.“
Endurvekja bókasöfnin
Undir liðnum „menning og íþróttir“ kemur fram að nýr meirihluti ætli að þróa bókasöfn sem „upplýsinga-, menningar-, hringrásar- og samfélagsmiðstöðvar um alla borg“. Borgin segist ætla að útfæra mannlausa sólarhringsopnun bókasafna þar sem því verður við komið.
Meirihlutinn minnst á að unnið verði að staðarvalsgreiningu fyrir bókasafn í Árbæ og skoðað verði nýja staðsetningu Kringlusafnsins. Unnið verði áfram að þróun Grófarhúss. Efnt verður til hugmyndasamkeppni um breytingar á Hafnarhúsinu í húsi myndlistar.
Þegar kemur að íþróttastefnu borgarinnar horfir meirihlutinn til þess að þróa dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti og fjölnota boltahús fyrir KR í Vesturbæ. Byggð verði upp þjóðarhöll og aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal í samvinnu við ríkið. Einnig verði fimleikaaðstaða fyrir Fylki stækkuð.
Meirihlutinn tekur fram að eftirfarandi átján atriði verði sett í forgang í upphafi kjörtímabilsins:
- Við ætlum að ráðast í húsnæðisátak og úthluta lóðum í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, á Hlíðarenda, í Gufunesi og á Ártúnshöfða.
- Við viljum efna til samkeppni um skipulag Keldnalands og Keldnaholts og flýta þannig uppbyggingu svæðanna með tilkomu Borgarlínu.
- Við ætlum að hefja gerð umhverfismats vegna Sundabrautar.
- Við ætlum að beita okkur fyrir gerð húsnæðissáttmála ríkis og sveitarfélaga.
- Við ætlum að hækka frístundastyrk upp í 75 þúsund krónur frá 1. janúar 2023.
- Við ætlum að hafa ókeypis í sund fyrir börn á grunnskólaaldri.
- Við ætlum að hafa ókeypis í Strætó fyrir börn á grunnskólaaldri.
- Við ætlum að koma á næturstrætó.
- Við ætlum að gera tilraun með miðnæturopnun í einni sundlaug, einu sinni í viku.
- Við ætlum að setja viðhaldsátak í leik-, grunn- og frístundahúsnæði borgarinnar í forgang og flýta verkefnum eins og kostur er.
- Við ætlum að hefja átak í betri svefni barna og skoða breytingar á upphafi skóladags.
- Við ætlum að setja á fót skaðaminnkandi úrræði fyrir unga karlmenn.
- Við ætlum að stofna framkvæmdanefnd um þjóðarhöll og aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal í samvinnu við ríkið.
- Við ætlum að auglýsa eftir samstarfsaðilum til að þróa hugmyndir um miðstöð jaðaríþrótta í Toppstöðinni í Elliðaárdal.
- Við ætlum að efna til samkeppni um Dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti.
- Við viljum ná samstöðu um að stofna áfangastaða- og markaðsstofu ásamt sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til að efla ferðaþjónustu á svæðinu.
- Við ætlum að hefja framkvæmdir á Hlemmtorgi.
- Við ætlum að efna til samtals við alla borgarfulltrúa um bættan starfsanda og fjölskylduvæna borgarstjórn.