Fjármálaeftirlitsnefnd, sem tekur ákvarðanir fyrir hönd Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, hefur heimilað á ný að fjármálafyrirtæki og vátryggingarfélög greiði út arð og kaupi eigin bréf, en með skilyrðum þó til og með 30. september næstkomandi.

Ákvörðunin um að banna arðgreiðslurnar var tekin í kjölfar álíka ákvarðana eftirlitsstofnana Evrópusambandsins sem vildu leggja áherslu á að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu fyrirtækjanna á tímum mikillar óvissu vegna kórónuveirufaraldursins.

Segist nefndin brýna fyrir fjármálafyrirtækjum að við ákvarðanir um arðgreiðslur eða uppkaup nú verði eftirtalin atriði höfð að leiðarljósi:

  • Afkoma fjármálafyrirtækis hafi verið jákvæð á síðasta rekstrarári og áætlanir um þróun eigin fjár sýni sterka eiginfjárstöðu næstu þrjú ár. Mælst er til að mat fjármálafyrirtækis á hvoru tveggja verði borið tímanlega undir Fjármálaeftirlitið.
  • Fjárhæð arðgreiðslu eða kaupa á eigin bréfum nemi að hámarki 25% af uppsöfnuðum hagnaði eftir skatta vegna áranna 2019 og 2020 eða 0,4 prósentustiga lækkunar á hlutfalli almenns eiginfjárþáttar 1, hvort sem lægra reynist.

Jafnframt brýnir nefndin fyrir vátryggingafélögum að gæta ýtrustu varfærni við stýringu eiginfjár vegna þeirrar óvissu sem ríkir í efnahagsmálum af völdum faraldursins.

Fjármálaeftirlitsnefnd tekur þar undir yfirlýsingu EIOPA, vátryggingar- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunar ESB, frá 18. desember 2020 um þá áhættu sem vátryggingafélög standa frammi fyrir og að varúðarsjónarmiða skuli gætt við ákvörðun um greiðslu arðs og kaup á eigin hlutabréfum.

Við ákvarðanir um greiðslu arðs eða kaup á eigin hlutabréfum verða vátryggingafélög að huga að gjaldþolsstöðu sinni. Á meðan óvissan ríkir mun Fjármálaeftirlitið fylgjast náið með því hvort eigið áhættu- og gjaldþolsmat vátryggingafélaga sé nægilega varfærið og framsýnt.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu nefndarinnar sem birtist á vef Seðlabankans , en þar kemur fram að ákvörðunin nú komi í kjölfar og taki mið af yfirlýsingu kerfisáhætturáðs ESB frá 15. desember síðastliðnum.

Sú ákvörðun snýr við yfirlýsingu nefndarinnar frá 8. apríl 2020, sem aftur tók undir yfirlýsingar bankaeftirlitsstofnunar sambandsins frá 31. mars og vátrygginga- og lífeyriseftirlitsstofnunar sambandsins frá 2. apríl.

Í fjármálaeftirlitsnefnd sitja varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og þrír sérfræðingar í málefnum fjármálamarkaðar sem ráðherra sem fer með málefni fjármálamarkaðar skipar til fimm ára í senn. Varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits er formaður fjármálaeftirlitsnefndar og er varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika staðgengill hans.