Peninga­stefnu­nefnd Seðla­banka Ís­lands hefur á­kveðið að halda vöxtum bankans ó­breyttum. Megin­vextir bankans, vextir á sjö daga bundnum inn­lánum, verða því á­fram 9,25%.

Þetta kemur fram í yfir­lýsingu peninga­stefnu­nefndar sem birtist í morgun.

„Verð­bólga minnkaði lítil­lega milli mánaða í októ­ber og mældist 7,9%. Undir­liggjandi verð­bólga hefur einnig hjaðnað. Á­fram eru vís­bendingar um að tekið sé að hægja á einka­neyslu og fjár­festingu,” segir í yfir­lýsingu nefndarinnar.

Sam­kvæmt nýrri spá Seðla­bankans hafa verð­bólgu­horfur þó versnað.

Peninga­stefnu­nefnd segir spennan í þjóðar­búinu hafa reynst meiri en áður var talið og gengi krónunnar lækkað.

Verð­bólgu­væntingar hafa jafn­framt haldist háar og kostnaðar­hækkanir virðast hafa meiri og lang­vinnari á­hrif á verð­bólgu en áður.

„Þótt á­hrif vaxta­hækkana undan­farin misseri séu að koma skýrar fram benda verri verð­bólgu­horfur til þess að það gæti þurft að herða taum­hald peninga­stefnunnar enn frekar. Þrátt fyrir það hefur peninga­stefnu­nefnd á­kveðið að halda vöxtum ó­breyttum að sinni í ljósi þeirrar ó­vissu sem ríkir um efna­hags­leg á­hrif jarð­hræringa á Reykja­nesi. Mótun peninga­stefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efna­hags­um­svifa, verð­bólgu og verð­bólgu­væntinga,“ segir í yfir­lýsingu nefndarinnar.

Vextir verða því sem hér segir:

Daglán 11,0%
Lán gegn veði til 7 daga 10,0%
Innlán bundin í 7 daga 9,25%
Viðskiptareikningar 9,0%

Peninga­stefnu­nefnd Seðla­banka Ís­lands mun gera grein fyrir á­kvörðun sinni í beinni kl. 9:30. Hægt verður að fylgjast með á vef Við­skipta­blaðsins.

Ás­geir Jóns­son, seðla­banka­stjóri og for­maður peninga­stefnu­nefndar, Rann­veig Sigurðar­dóttir, vara­seðla­banka­stjóri peninga­stefnu og stað­gengill formanns, og Þórarinn G. Péturs­son, aðal­hag­fræðingur Seðla­bankans, verða á fundinum og kynna einnig efni peninga­mála.