„Það er ástæða fyrir því að það þurfti ríkisábyrgð á útgáfu sjóðsins,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og bendir með því á að bæri ríkissjóður fulla ábyrgð á skuldbindingum allra ríkisstofnana hefði verið með öllu óþarft að taka sérstaklega fram að ríkissjóður ábyrgðist greiðslu íbúðabréfanna svokölluðu, sem gefin voru út af gamla Íbúðalánasjóði fyrir hrun og eru nú orðin að skuldbindingum arftaka hans, ÍL-sjóðs.

„Það er ástæða fyrir því að áhættunni vegna ÍL-sjóðs var komið fyrir í sérstökum sjóði. Þetta var ekki gefið út af ríkissjóði og ríkissjóður er ekki í fullri ábyrgð fyrir sjóðnum, ekki frekar en þegar stofnað er hlutafélag.“

„Nú er bara komin upp sú staða að sjóðurinn á ekki fyrir skuldum, þó hann geti borgað áfram í einhvern tíma. Það stenst enga skoðun að ríkið hafi lofað því að efna allar skuldbindingar sjóðsins til fulls. Slíkt loforð hefur aldrei komið fram og ég kalla eftir því að bent verði á hvar það á að hafa birst.

Með því að leggja fram skýrslu á Alþingi og halda blaðamannafund um stöðuna segist Bjarni hafa viljað opna umræðuna og hefja alvöru samtal um hvernig leysa skuli úr vandanum. „Það eru engir góðir kostir í stöðunni.“

Nánar er rætt við Bjarna í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.