Hildur Sverris­dóttir, þing­flokks­for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, segir um­mæli Jóhanns Páls Jóhanns­sonar þing­manns Sam­fylkingarinnar um að ríkis­stjórnar­sam­starfið sé gangandi vegna styrkja til stjórn­mála­flokka standast enga skoðun.

„Í ræðu­stól Al­þingis á dögunum stóð Jóhann Páll Jóhanns­son, þing­maður Sam­fylkingarinnar, og hélt því blá­kalt fram að ríkis­stjórnar­flokkarnir héldu sam­starfi sínu gangandi ein­vörðungu til að tryggja sér háa styrki úr vösum skatt­greið­enda, sem koma til greiðslu í janúar. Góðar sam­særis­kenningar geta verið safa­ríkar og spennandi en verra er þegar þær standast ekki minnstu skoðun,” skrifar Hildur í að­sendri grein á Vísi.

Hún segir engan þurfa að leita langt eftir af­stöðu Sjálf­stæðis­flokksins til ríkis­styrkja til stjórn­mála­flokka en flokkurinn hefur lengi talað fyrir breytingum á fjár­mögnun stjórn­mála­flokka, þar á meðal al­gjöru af­námi opin­berra styrkja.

Á síðasta lands­fundi Sjálf­stæðis­flokksins á­lyktaði fundurinn að af­nema skyldi opin­bera styrki til stjórn­mála­flokka og hækka há­marks­fram­lag annarra aðila í staðinn. Þessari á­lyktun hafa þing­menn flokksins fylgt eftir í verki.

Diljá Mist Einars­dóttir þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins hefur t.a.m. í­trekað lagt fram frum­varp sem miðar að því að draga úr opin­berum styrkjum til stjórn­mála­flokka og auð­velda þeim sjálf­stæða tekju­öflun.

Í því frum­varpi er einnig lagt til að þröskuldurinn til að hljóta fram­lag frá hinu opin­bera skuli hækkaður úr 2,5% í 4% at­kvæða­magn.

Þetta tryggir að flokkarnir verði á­fram bundnir af skýrum reglum um gagn­sæi og fram­lög frá ó­þekktum aðilum verða á­fram bönnuð.

„Hugar­órar um að ríkis­stjórnar­sam­starfið byggi á von um fjár­fram­lög eiga sér væntan­lega rætur í pólitískum á­setningi fremur en því að þing­maðurinn trúi þessu sjálfur. Sú heims­mynd að flokkarnir sem stýra landinu geri það í þeim eina til­gangi að fá fjár­greiðslur frá ríkinu er dökk og hryggi­leg. Það vona ég inni­lega og trúi ekki að nokkur flokkur vinni út frá slíkri hug­mynda­fræði,“ skrifar Hildur

„Stjórn­mála­flokkar eiga að hafa mögu­leika á að axla á­byrgð á eigin fjár­málum með sjálf­stæðri fjár­mögnun, án þess að styrkir frá ríkinu séu þeirra helstu tekju­lind. Opin­ber fjár­fram­lög eiga ekki og ættu ekki að vera stjórn­mála­flokkum hald­reipi, öllu heldur þarf að hvetja til aukinnar á­byrgðar og gegn­sæis.

Eitt er alla­vega víst, Sjálf­stæðis­flokkurinn óttast ekki kosningar, nú sem endra­nær, hve­nær sem þær kunna að verða haldnar,“ skrifar Hildur að lokum.