Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að afstaða Landsvirkjunar gagnvart rafmyntaiðnaði sé óbreytt frá 2022 og að engin áætlun liggi fyrir um að veita erlendum rafmyntafyrirtækjum aðgang að íslenskri orku.
Greint var frá því í gær að bandaríska rafmyntafyrirtækið Bit Digital vill auka starfsemi sína á Íslandi. Bandarísk yfirvöld hafa lagt til að skattleggja raforkunotkun rafmyntafyrirtækja enn frekar en ríkisstjórn Joe Biden hefur lengi kvartað undan óhóflegri raforkunotkun þessara fyrirtækja.
Samir Tabar, framkvæmdastjóri Bit Digital, sagði í samtali við Wall Street Journal að fyrirtækið hafi nýlega keypt 2.500 námuvélar sem hann vildi koma fyrir á Íslandi.
Landsvirkjun sagði hins vegar árið 2022 að öllum beiðnum um raforkukaup vegna rafmynta, bæði til þáverandi viðskiptavina og nýrra fyrirtækja, yrði hafnað. Í samtali við Viðskiptablaðið segist Hörður ekki kannast við að Bit Digital hafi reynt að setja sig í samband við Landsvirkjun í tengslum við málið.
„Við heyrum oft frá fyrirtækjum en svarið okkar er bara mjög skýrt. Það er ekki í forgangi hjá okkur að styðja við fyrirtæki sem eru í rafmyntaframleiðslu. Þau eiga heldur ekki möguleika á því að kaupa af okkur forgangsorku,“ segir Hörður.