Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur og mikilvirkur bloggari skrifar grein í Viðskiptablaðið þar sem hann segir blaðið og utanríkisráðuneytið hafa rangt fyrir sér um áhrif nýrrar orkutilskipunar ESB hér á landi.
Segir hann að blaðið hafi í fréttaskýringu , sem birtist undir fyrirsögninni „Mikilsverðir orkuhagsmunir ekki í húfi“ sett fram allmargar staðhæfingar byggðar á upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu sem stangist algerlega við staðreyndir málsins. Um er að ræða svokallaðann þriðja orkupakka ESB, en með honum segir Bjarni að nýrri orkustofnun ESB, ACER, sé komið og fót og vald framkvæmdastjórnar ESB í málaflokknum framselt til hennar.
Sérfræðingar í orkurétti í Noregi hafa hins vegar haldið því fram að þriðji orkupakkinn og ACER feli ekki í sér framsal á yfirráðum yfir orkulindum og orkugrunnvirkjum til stofnana ESB.
Tífaldur verðmunur við Ísland verði jafnaður út
Hlutverk stofnunarinnar, að mati Bjarna, er að útrýma flöskuhálsum í flutningskerfum orku innan sambandsins og tryggja að verð jafnist út milli en eins og staðan er nú sé verðmunur milli Íslands og ESB til að mynda allt að tífaldur. Þess má geta í þessu samhengi að Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins hefur, eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá, gagnrýnt verðhækkanir Landsvirkjunar á raforku sem þýði að dregið hafi úr samkeppnisforskoti Íslendinga í raforkumálum.
„Sú viðmiðunarregla ríkir hjá ACER, að bæta skuli raforkusamtengingar á milli svæða eða landa, ef verðmismunur þar á milli er meiri en 2,0 EUR/ MWh, sem á núverandi gengi eru tæplega 0,25 ISK/kWh,“ segir Bjarni sem segir að stofnunin hyggist hafa forgöngu um lagningu sæstrengs frá Íslandi og stefnt sé að því hann verði kominn í gagnið árið 2027.
„Eftir að þjóðþing hefur samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í lagasafn sitt, hefur þingið afhent ACER og EFTA/ESB dómstólunum allt forræði orkuflutningsmála í landinu, og stjórnvöld viðkomandi lands geta þá ekki stöðvað þá framvindu, sem ACER hefur ákveðið.
Á Íslandi mundi ferlið verða þannig, að ESA framsendir fyrirmæli frá ACER til OS, sem gefur út reglugerðir fyrir Landsnet um uppbyggingu raforkuflutningskerfisins innanlands til að gera kleift að reka sæstrenginn áfallalaust fyrir íslenzka stofnkerfið.“
ESA í skipuritinu upp á punt
Segir hann að ESA sé komið upp sem millilið í skipuritinu upp á punt, en fái samt sem áður engar heimildir til sjálfstæðrar ákvarðanatöku um þau fyrirmæli sem berist frá ACER til útibús hennar í viðkomandi ríki.
„ESB ríkin eiga þar atkvæðisrétt, en EFTA ríkin í EES mundu einvörðungu fá rétt til áheyrnar við inngöngu í Orkusambandið. Þannig mundi ríkja ójafnræði með EFTA- og ESB-ríkjunum við ákvarðanatökur hjá ACER,“ segir Bjarni í greininni en hann segir vald stofnunarinnar koma til með tvennum hætti.
„Fyrst eru allar reglusetningarheimildir og eftirlitsstarfsemi með raforkuflutningum færðar til orkustofnunar viðkomandi ríkis. Síðan er orkustofnun þjóðríkisins, eða sá hluti hennar, sem fer með málefni orkuflutninga, færð undan stjórnvaldi viðkomandi þjóðríkis, þ.e. undan ráðuneyti, og undir stjórnvald ACER.“
Þannig fái stofnunin einnig vald til að skera úr um hvernig kostnaður við lagningu sæstrengs skiptist milli landsnetsstofnana ríkjanna sem tengd eru með honum. Þessu hefur utanríkisráðuneytið þó vísað á bug, líkt og kom fram í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins.
Jafngildir ESB aðild ef þingið getur ekki beitt neitunarvaldi
Segir hann það því rangt hjá Viðskiptablaðinu að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér framsal á yfirráðum yfir íslenskum orkulindum , því með gagnsetningu sæstrengs verði þjóðin hluti af sameiginlega raforkumarkaðnum.
„Það er rangt, að höfnun Alþingis á þriðja orkubálki ESB „gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar“. Hámarksviðbrögð ESB eru niður njörvuð í EES-samninginum,“ segir Bjarni.
Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók í sama streng eins og Viðskiptablaðið sagði frá nýlega . Hann sagði að þingmenn mættu ekki láta undan hræðsluáróðri heldur ætti að láta reyna á fullveldisréttinn. Málflutningur Sjálfstæðisflokksins í þessu máli er samhljóða málflutningi flokka á vinstri væng norskra stjórnmála, sem flokkar á borð við Hægriflokkinn og Framfaraflokkinn hafa einmitt sakað um hræðsluáróður.
„Slíkt getur ekki skaðað EFTA-löndin, og þau munu áfram halda sínum viðskiptum við ESB-löndin með orku og annað, enda eru hagsmunir ESB ótvíræðir að halda viðskiptafrelsinu við EFTA löndin. Í Sameiginlegu EES-nefndinni eru ákvarðanir teknar einróma.
Að halda því fram, að beiting neitunarvalds Alþingis muni hafa alvarlegar afleiðingar á EES-samstarfið er sama og að segja, að staða EFTA-ríkjanna sé sú sama gagnvart stjórnvöldum ESB og ESB-ríkjanna sjálfra, sem þá jafngildir ESB-aðild.“