Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri opinbera hlutafélagsins Betri samgangna, segist ekki kannast við neina borg í Evrópu sem treystir á það að sjálfkeyrandi bílar muni leysa af hólmi þörfina fyrir almenningssamgöngur. Hann segir að allar borgir í Evrópu leggi nú áherslu á bættar almenningssamgöngur og göngu- og hjólastíga.
„Ég hef ekki heyrt þetta frá neinum. Ef þú myndir taka hringinn á allar verkfræðistofur í Reykjavík og á Norðurlöndunum og spyrja samgöngusérfræðingana þar um þetta þá veit ég ekki um neinn sem myndi halda þessu fram,“ segir Davíð.
Guðmundur Fertram, stofnandi Kerecis, var gestur á Sprengisandi á Bylgjunni í gærmorgun og sagði meðal annars að það erfiðasta við að reka fyrirtæki á Vestfjörðum væru samgöngur. Hann gagnrýndi núverandi samgönguáætlun og sagði að það þyrfti að tengja Vestfirði með láglendisvegi við Reykjavíkursvæðið.
Hann var einnig mjög harðorður um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu og sagði að borgarlínan væri tækni gærdagsins.
„Svo er verið að setja 250 milljarða í Borgarlínu sem er bara gömul tækni. Tími almenningssamgangna er búinn. Nú er þetta sjálfkeyrandi bílar og deilibílar. Í stórborgum út í heimi er eftirspurn eftir almenningssamgöngum að minnka. Hún er að færast yfir í Uber og Lyft.
Þessir bílar verða sjálfkeyrandi eftir nokkur ár. Það mun enginn koma til með að eiga bíla eftir nokkur ár, það mun enginn til með að nota almenningssamgöngur.“
Davíð segir það mikilvægt að fylgjast með allri nýrri tækni og að það væri frábært ef sú tækni myndi gera það að verkum að hægt væri að spara í uppbyggingu. Hann segir hins vegar að slíkar spár séu ekki nýjar af nálinni.
„Í kringum 1990 þegar netið var að ná fótfestu þá voru sumir sem spáðu því að það þyrfti ekki að byggja upp neina samgönguinnviði eða verslunar- eða skrifstofuhúsnæði því það væru bara allir heima hjá sér. Sem betur fer veit ég ekki um neina borgir sem fóru þá leið að hætta við uppbyggingu á samgönguinnviðum út af því.“
„Ég hef aldrei heyrt þessa tölu áður.“
Davíð segir það heldur ekki rétt að eftirspurn eftir almenningssamgöngum fari minnkandi. „Eftirspurnin minnkaði í Covid en það breyttist mjög fljótlega eftir það. Allar borgir sem eru í vexti á vesturlöndunum eru að sjá aukna eftirspurn bæði vegna fólksfjölgun og fjölgun mannvirkja.“
Hann segist heldur ekki kannast við það að borgarlínan muni kosta 250 milljarða. „Það er bara ekki rétt. Ég hef aldrei heyrt þessa tölu áður. Það er núna verið að endurskoða allar áætlanir þannig við erum ekki búin að gefa út neinar nýjar tölur en þær munu koma fram núna í haust.“
Á vefsíðu borgarlínunnar kemur fram að framkvæmdakostnaður 1. lotu borgarlínunnar er áætlaður 24,9 milljarðar króna.