Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir for­maður Viðreisnar sagði í Grjót­kastinu, hlaðvarpi Björns Inga Hrafns­sonar, að hún teldi Sjálf­stæðis­flokkinn ekki stjórntækan á landsvísu.

Þor­gerður Katrín og Kristrún Frosta­dóttir for­maður Sam­fylkingarinnar voru gestir Björns Inga í þættinum en þar kom meðal annars fram að flokkarnir tveir sæju sam­leið í hinum ýmsu málum.

Þor­gerður sagði kjó­sendur ekki vera að hugsa um hvort það yrði hægri eða vinstri stjórn heldur væri það bara fjölmiðlafólk sem væri að spyrja slíkra spurninga.

Þetta byggði hún meðal annars á ferð Viðreisnar um landið allt með tús­stöflu þar sem kjó­sendur hafa látið skoðanir sínar á hinum ýmsu mál­efnum með penna­striki.

„Kristrún er með plan og þú ert með töflu,“ sagði Björn Ingi léttur á bragði.

„Ég hef alltaf talað mjög hreint út um það að þunga­vigtin þurfi að vera í gegnum miðjuna. Við eigum að mynda stjórn út frá miðjunni og þeir sem eru fyrir utan miðjuna verða bara ein­fald­lega að koma inn á miðjuna,“ sagði Þor­gerður. „Það sem ég er að bjóða upp á í dag er að þeir sem vilja koma inn á þessa frjáls­lyndu miðju þar sem að Viðreisn er, við erum til í það sam­tal,“ sagði Þor­gerður og bætti við að hún sjái sam­leið með Viðreisn og Sam­fylkingunni.

„Þetta var stór yfir­lýsing“

Björn Ingi sagði þessa flokka ein­mitt hafa verið í sam­starfi í Reykja­víkur­borg og bætti við „hefur það ekki gengið bara frekar vel? Í frekar óvinsælum meiri­hluta. Hann var svo óvinsæll að það eina sem gat toppað hann í óvinsældum var þessi blessaða ríkis­stjórn.“

„Við erum búin að vera í fínu sam­starfi við flokkana í borginni en það verður líka að segjast eins og er að, eins og Sjálf­stæðis­flokkurinn er alltaf að tönglast yfir þessum borgar­stjórnar­meiri­hluta, þá skulum við vera hrein og bein með það að Sjálf­stæðis­flokkurinn er hvorki stjórntækur í borginni eins og sakir standa né á landsvísu,“ sagði Þor­gerður.

Hún sagði þó Hildi Björns­dóttir, odd­vita Sjálf­stæðis­flokksins í borginni, sú eina sem væri að tala á skyn­sam­legum nótum.

Björn Ingi stöðvaði Þor­gerði um stund og spurði: „Var for­maður Viðreisnar, fyrr­verandi vara­for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, að segja Sjálf­stæðis­flokknum ekki stjórntækur í landsmálunum heldur?“

„Maður spyr sig,“ sagði Þor­gerður Katrín.

Björn Ingi bætti þá við að hann væri nægi­lega gamall til að vita hvenær hann heyrir stórar yfir­lýsingar og „þetta var stór yfir­lýsing.“