Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sagði í Grjótkastinu, hlaðvarpi Björns Inga Hrafnssonar, að hún teldi Sjálfstæðisflokkinn ekki stjórntækan á landsvísu.
Þorgerður Katrín og Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar voru gestir Björns Inga í þættinum en þar kom meðal annars fram að flokkarnir tveir sæju samleið í hinum ýmsu málum.
Þorgerður sagði kjósendur ekki vera að hugsa um hvort það yrði hægri eða vinstri stjórn heldur væri það bara fjölmiðlafólk sem væri að spyrja slíkra spurninga.
Þetta byggði hún meðal annars á ferð Viðreisnar um landið allt með tússtöflu þar sem kjósendur hafa látið skoðanir sínar á hinum ýmsu málefnum með pennastriki.
„Kristrún er með plan og þú ert með töflu,“ sagði Björn Ingi léttur á bragði.
„Ég hef alltaf talað mjög hreint út um það að þungavigtin þurfi að vera í gegnum miðjuna. Við eigum að mynda stjórn út frá miðjunni og þeir sem eru fyrir utan miðjuna verða bara einfaldlega að koma inn á miðjuna,“ sagði Þorgerður. „Það sem ég er að bjóða upp á í dag er að þeir sem vilja koma inn á þessa frjálslyndu miðju þar sem að Viðreisn er, við erum til í það samtal,“ sagði Þorgerður og bætti við að hún sjái samleið með Viðreisn og Samfylkingunni.
„Þetta var stór yfirlýsing“
Björn Ingi sagði þessa flokka einmitt hafa verið í samstarfi í Reykjavíkurborg og bætti við „hefur það ekki gengið bara frekar vel? Í frekar óvinsælum meirihluta. Hann var svo óvinsæll að það eina sem gat toppað hann í óvinsældum var þessi blessaða ríkisstjórn.“
„Við erum búin að vera í fínu samstarfi við flokkana í borginni en það verður líka að segjast eins og er að, eins og Sjálfstæðisflokkurinn er alltaf að tönglast yfir þessum borgarstjórnarmeirihluta, þá skulum við vera hrein og bein með það að Sjálfstæðisflokkurinn er hvorki stjórntækur í borginni eins og sakir standa né á landsvísu,“ sagði Þorgerður.
Hún sagði þó Hildi Björnsdóttir, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni, sú eina sem væri að tala á skynsamlegum nótum.
Björn Ingi stöðvaði Þorgerði um stund og spurði: „Var formaður Viðreisnar, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, að segja Sjálfstæðisflokknum ekki stjórntækur í landsmálunum heldur?“
„Maður spyr sig,“ sagði Þorgerður Katrín.
Björn Ingi bætti þá við að hann væri nægilega gamall til að vita hvenær hann heyrir stórar yfirlýsingar og „þetta var stór yfirlýsing.“