Boris Johnson mun að líkindum bjóða sig fram til leiðtoga Íhaldsflokksins, samkvæmt heimildum The Telegraph. Johnson telur að framboð sitt sé í þágu „þjóðarhagsmuna“ samkvæmt heimildum The Times.

Fjölmiðlarnir segja að Johnson sé nú að skoða stöðu sína og að hann telji sig geta snúið við gengi Íhaldsflokksins. Nokkrir þingmenn úr röðum Íhaldsflokksins hafa þegar mælt með að Johnson taki aftur við embættinu af Liz Truss, sem tilkynnti fyrr í dag að hún myndi segja af sér.

Truss, sem fer í sögubækurnar sem skammlífasti forsætisráðherra í sögu Bretlands, tilkynnti að leiðtogakjör hjá flokknum verði haldið strax í næstu viku. Hún muni gegna embætti forsætisráðherra þangað til eftirmaður hennar verði kjörinn.