Félag íslenskra bifreiðaeigenda sendi nýlega frá sér tilkynningu þar sem svokölluð græðgisvæðing á bílastæðum er gagnrýnd. FÍB segir að bæði Reykjavíkurborg og einkafyrirtæki hafi að undanförnu stóraukið gjaldtöku og oft með óljósum hætti.

Sem dæmi nefnir FÍB bílastæðið á Barónsstíg 4, þar sem klukkutíminn kostar þúsund krónur og innheimt er allan sólarhringinn.

„Frumskógur innheimtuleiða og gjaldtökusvæða veldur því jafnframt að fjölmargir bíleigendur fá allt að 4.500 króna kröfu um vanrækslugjald eða aukastöðugjald vegna þess að þeir greiddu ekki fyrir rétt stæði – þó að þeir hafi greitt fyrir stæði – eða voru ekki með tiltækt rétt app eða greiðsluaðferð,“ segir í tilkynningu.

Að mati FÍB hefur þetta einnig haft alvarleg áhrif á gjaldfrjáls bílastæði en íbúar miðsvæðis í Reykjavík hafa víða verið að missa stæði við heimilin sín vegna þessa. Lengdur gjaldskyldutími Reykjavíkurborgar til 21 hafi þá aðeins gert illt verra.

FÍB gagnrýnir einnig bílastæðið við Domus Medica á Egilsgötu 3 en þar er gjald innheimt allan sólarhringinn, þó svo að engin starfsemi sé í húsinu frá því seinnipart dags fram að morgni. Þá þurfa viðskiptavinir opinberra stofnana einnig að greiða fyrir bílastæði jafnvel þó að þeir séu tilneyddir til að eiga erindi þangað en FÍB leggur til að fyrsti hálftíminn ætti að vera gjaldfrjáls.

„Ringulreið innheimtuaðferða, græðgisvæðing á bílastæðum og lenging gjaldtökutíma lendir af fullum þunga á herðum almennings. Óviðunandi er að fólk sitji uppi með alls konar refsigjöld vegna þessa ástands. Sérkennilegt er að horfa upp á þéttingu íbúabyggðar í miðborg Reykjavíkur á sama tíma og bílastæðum er fækkað, gjöld hækkuð og gjaldtökusvæðum fjölgað, án þess að því fylgi aukin og bætt þjónusta með almenningssamgöngum,“ segir jafnframt í tilkynningu.