Þrír bandarískir öldungadeildarþingmenn úr röðum demókrata hafa sent bréf til stjórnenda McDonald‘s þar sem krafist var svara um verðhækkanir skyndibitakeðjunnar. Verðhækkanirnar eru sagðar langt umfram verðbólgu og rekstrarkostnað.

Elizabeth Warren frá Massachusetts, Bob Casey frá Pennsylvaníu og Ron Wyden frá Oregon sendu bréfið í gær til Chris Kempczinski, forstjóra McDonalds.

Frá árunum 2020 til 2023 jókst rekstrarkostnaður McDonald‘s um 16,5% en á sama tímabili jókst hreinn hagnaður fyrirtækisins um 26% til 32%. Með það í huga jukust árstekjur McDonald‘s um meira en 79% í tæpa 8,5 milljarða dala.

Skyndibitakeðjan hefur ekki viljað tjá sig um bréfið en keðjur á borð við McDonald‘s virðast vera meðvitaðar um neikvætt viðhorf viðskiptavina til verðlags þeirra. McDonald‘s hefur til að mynda boðið aftur upp á fimm dala tilboðslistann sinn til að laða kúnna aftur til sín.

Öldungadeildarþingmennirnir viðurkenna í bréfinu að verðlag hafi hækkað verulega hjá mörgum vinsælum veitingakeðjum frá heimsfaraldri. McDonald‘s er hins vegar tekið fyrir í bréfinu þar sem hún er stærsta skyndibitakeðja Bandaríkjanna og hefur verið frekar óskýr þegar kemur að útskýringum um fjármál fyrirtækisins.