Sam­keppnis­eftir­litið hefur lagt 1,4 milljarða króna sekt á Lands­virkjun vegna al­var­legra brota á sam­keppnislögum. Niður­staðan er af­rakstur ítar­legrar rannsóknar sem náði til út­boða Lands­nets á árunum 2017 til 2021.

Sam­kvæmt ákvörðun eftir­litsins mis­notaði Lands­virkjun markaðs­ráðandi stöðu sína með verðlagningu raf­orku í út­boðum og gerði þannig keppi­nautum sínum ók­leift að keppa til jafns. Þeir við­skipta­vinir sem keyptu raf­orku af Lands­virkjun og tóku einnig þátt í út­boðum gátu sam­kvæmt niður­stöðunni ekki selt raf­orkuna áfram nema með tapi.

Hátt­semin dró úr mögu­leikum nýrra og smærri orku­fyrir­tækja til að festa sig í sessi á markaðnum. Sam­keppnis­eftir­litið telur að þetta hafi unnið gegn hags­munum bæði fyrir­tækja og heimila sem njóta ávinnings af virku sam­keppnis­um­hverfi

Páll Gunnar Páls­son, for­stjóri Sam­keppnis­eftir­litsins, segir ákvörðunina hafa víðtæka þýðingu.

„Virk samkeppni á raforkumarkaði hefur úrslitaþýðingu fyrir samkeppnishæfni Íslands og hagsmuni þeirra sem hér búa. Ef rétt er á málum haldið getur virk samkeppni stuðlað að raforkuöryggi, flýtt fyrir orkuskiptum, hraðað öðrum nýjungum og tryggt okkur hagstætt raforkuverð til framtíðar litið.

Í þessu ljósi skiptir miklu máli hvernig stór og rótgróin raforkufyrirtæki, oftast í opinberri eigu, haga sinni starfsemi. Þessi ákvörðun fjallar um það,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Ákvörðunin undir­strikar, að mati eftir­litsins, mikilvægi þess að stór og rót­gróin orku­fyrir­tæki, sem eru að mestu í opin­berri eigu, fari að sam­keppnis­reglum og stuðli að heil­brigðu við­skipta­um­hverfi.