Norski olíusjóðurinn seldi sig út úr 49 fyrirtækjum í fyrra vegna sjálfbærniþátta. Til samanburðar seldi sjóðurinn sig út úr 86 fyrirtækjum árið 2023 og hefur alls tekið ákvarðanir um 575 sölur frá árinu 2012 vegna þessara áherslna að því er segir í nýrri sjálfbærniskýrslu sjóðsins.
Af hinum 49 fyrirtækjum sem sjóðurinn seldi sig út úr voru fimm fyrirtæki sem þóttu ekki uppfylla skilyrði í tenglum við loftslagsáhættu, 15 fyrirtæki þóttu vera með ófullnægjandi áhættustjórnun í tengslum við mannréttindi og átta sölur tengdust aðgerðum gegn spillingu.
Olíusjóðurinn vill að öll fyrirtæki sem hann fjárfestir í nái fram kolefnishlutleysi í rekstri sínum fyrir árið 2050 í síðasta lagi. Fram kemur að 74% af fjármögnuðum útblæstri í eignasafni sjóðsins komi frá fyrirtækjum sem eru búin að setja sér slíkt markmið.
Sjóðurinn greiddi atkvæði á yfir 11 þúsund hluthafafundum í fyrra. Hann fór þar gegn tillögum stjórnar í 5% tilvika, m.a. vegna atriða á borð við kjör stjórnenda og sjálfstæði stjórnar.
Í umfjöllun Bloomberg segir að olíusjóðurinn sé að halda sér fast við ESG-áherslur sínar þrátt fyrir bakslag þegar kemur að slíku regluverki, m.a. í Bandaríkjunum.