Flugfélagið Play segir horfur fyrir sumarið 2025 vera jákvæðar, þar sem sjá megi framfarir á sætanýtingu borið saman við sama tímabil í fyrra.
„Bókunarstaða farþega á leið til og frá Íslandi er góð, þar sem seldum sætum hefur fjölgað á milli ára þrátt fyrir að dregið hafi verið úr framboði frá því í fyrra,“ segir í tilkynningu Play til Kauphallarinnar um farþegatölur fyrir marsmánuð.
Félagið segir útlit fyrir færri tengifarþega borið saman við sama tímabil í fyrra en það sé bein afleiðing ákvörðunar Play um að leggja meiri áherslu á flug frá Íslandi til sólarlanda.
Farþegum fækkaði um 22%
Play flutti 111.531 farþega í mars síðastliðnum, samanborið við 142.918 farþega í mars í fyrra sem samsvarar 22% samdrætti milli ára. Félagið rekur það einkum til 16,5% mun á framboði milli ára sem sé bein afleiðing af ákvörðun að leigja eina af farþegaþotum sínum til GlobalX í Miami og aðlaga framboðið eftir árstíðabundnum sveiflum.
Þá var sætnýting Play í mars var 82,0% samanborið við 88,1% í mars árið áður en félagið bendir í þýeim efnum á að páskar voru í mars í fyrra en apríl í ár.
„Þá hefur Play lagt áherslu á aukið framboð til sólarlandaáfangastaða í Suður-Evrópu, sem endurspeglast í sætanýtingu í mars. Sólarlandaáfangastaðir gefa af sér betri afkomu en þar sem um er að ræða beint flug frá Íslandi þar sem tengifarþegar eru ekki fyrir hendi, kemur það jafnan niður á sætanýtingu.“
Af þeim farþegum sem flugu með Play í mars voru 30,7% á leiðinni frá Íslandi, 37,5% voru á leið til Íslands og 31,8% voru tengifarþegar (VIA).

Mikilvægt skref í átt að stöðugum rekstri
Náð samkomulagi við flugrekanda í AusturPlay Europe, dótturfélag Fly Play hf., fékk afhent flugrekstrarleyfi (AOC) frá flugmálayfirvöldum á Möltu í lok mars. Play Europe var stofnað í október eftir að breytingar á viðskiptalíkani félagsins voru kynntar í október í fyrra.
Félagið segir partur af nýja viðskiptalíkaninu vera að leigja vélar úr flota félagsins og verður flugrekstrarleyfið á Möltu nýtt til þess. Fyrsta flugvélin sem skráð er á maltneska flugrekstrarleyfið sé Airbus A321-NEO, framleidd árið 2018, með skráningarnúmerið 9H-PEA.
„Play europe hefur þegar náð samkomulagi við flugrekanda í Austur-Evrópu, en vélarnar sem eru leigðar út í það verkefni munu einungis sinna flugstarfsemi utan Íslands og ekki undir vörumerkjum Play. Með öðrum orðum verður ekki flogið á þeim til og frá Íslandi heldur frá borgum á meginlandi Evrópu.
Flugmenn og yfirflugliðar verða starfsmenn Play Europe og verða ráðnir og staðsettir í því landi sem leigutakinn flýgur frá. Fly Play hf. verður áfram íslenskt lágfargjaldaflugfélag með meirihluta af sínum vélum í rekstri frá Keflavík.“
„Það er stór áfangi fyrir okkur að vera komin með flugrekstrarleyfi á Möltu og mikilvægt skref í átt að stöðugum rekstri. Leyfið á Möltu gerir okkur kleift að framfylgja áætlun okkar um að leigja vélar úr flotanum, sem gerir rekstur félagsins mun fyrirsjáanlegri, arðbærari og þrautseigari,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.