Forseti Úkraínu, Volodymyr Selenskí, fundar í dag með Donald Trump og helstu leiðtogum Evrópu í Hvíta húsinu.
Á dagskrá eru mögulegar öryggistryggingar fyrir Úkraínu eftir stríðið, á sama tíma og aukinn þrýstingur er á Selenskí að fallast á landamærabreytingar sem Rússar hafa sett sem skilyrði fyrir friði.
Trump hitti Vladimír Pútín í Alaska á föstudaginn og vék þá frá kröfu sinni um tafarlaust vopnahlé, samkvæmt Financial Times.
Í kjölfarið sögðust þeir ætla að vinna að beinu friðarsamkomulagi, sem olli miklum áhyggjum í Kænugarði og víða í Evrópu.
Trump gaf síðan í skyn á samfélagsmiðlinum Truth Social að Selenskí gæti bundið endi á stríðið „nánast strax“ ef hann vildi.
Bandaríkin hafa þó gefið til kynna að þau séu reiðubúin að ræða öryggistryggingar sem gætu líkst 5. grein NATO-sáttmálans.
Evrópuríki hafa jafnframt lagt fram hugmynd um sérstaka tryggingahersveit með aðalstöðvar í París.
Selenskí krefst hins vegar skýrari útfærslu á því hverju Bandaríkin og Evrópa muni raunverulega skuldbinda sig til.
Á sama tíma héldu árásir Rússa áfram um helgina.
Úkraínski flugherinn greindi frá því að fjórum eldflaugum og rúmlega 100 drónum hefði verið skotið á úkraínskar borgir, meðal annars Kharkiv.
Selenskí sagði í Brussel að ómögulegt væri að ræða friðarsamninga á meðan landið sætti stöðugum árásum og krafðist vopnahlés áður en áfram yrði samið.
Á fundinum í Washington sitja einnig Ursula von der Leyen, Friedrich Merz, Keir Starmer, Emmanuel Macron, Giorgia Meloni, Alexander Stubb og Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO. Þar verður, auk öryggismála, rætt um refsiaðgerðir gegn Rússum og fjármögnun úkraínska hersins.