Bílaleiga Reykjavíkur var tekin til gjaldþrotaskipta í lok maí á þessu ári en þrotabúið auglýsti eignir bílaleigunnar til sölu í Morgunblaðinu í dag.
Um er að ræða fasteignir að Arnarvelli 4, Suðurnesjabæ, og Bogatröð 3, Reykjanesbæ „sem eru sérstaklega innréttaðar fyrir rekstur bílaleigu eða sambærilegan rekstur,“ samkvæmt auglýsingunni.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum leysti bankinn til sín bílaleigubíla sem voru veð vegna lána til Bílaleigu Reykjavíkur samhliða rekstrarstöðvun fyrirtækisins.
Bílarnir hafa ekki verið seldir í útboði heldur í gegnum bílasölur á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni.
„Þar sem stór hluti bílanna voru bílar sem þykja hentugir til útleigu en hafa reynst fremur þungir í endursölu á almennum markaði voru stærstu bílaleigurnar upplýstar um að bílarnir væru til sölu,“ segir í svörum bankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.
„Ástand bílanna var misjafnt og um helmingur þeirra er enn óseldur. Hluti þeirra er þegar á sölu á nokkrum bílasölum og bætt er við jafnt og þétt eftir því sem vinnst að standsetja þá fyrir sölu og eftir því sem aðstæður gefa tilefni til,“ segir í svöum Landsbankans.
Veltu 1,3 milljörðum árið 2022
Samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins frá árinu 2022 velti Bílaleiga Reykjavíkur velti félagsins um 1,3 milljörðum króna.
Félagið hagnaðist um 137 milljónir króna en eigið fé félagsins í árslok 2022 var neikvætt um tæpar 65 milljónir. Eignir félagsins námu 2,1 milljarði króna.
Í skýrslu stjórnar var tekið fram að COVID-19 faraldurinn hefði haft umtalsverð áhrif á rekstur félagsins undanfarin ár en félagið væri þó að vinna sig út úr vandamálum frá COVID-tímanum.
Snorri Gunnar Steinsson átti 90% hlut í félaginu en félagið átti sjálft 10%.