Bandaríska eignastýringafélagið Golden Tree Asset Management hefur samþykkt að kaupa 800 milljóna evru lánasafn frá Bank of Ireland Group, samkvæmt Bloomberg.
Samsvarar það um 120 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins en um er að ræða neytendalán til Breta og Íra en að sögn Bloomberg er írski bankinn að losa lánasafnið af bókum sínum af brýnni nauðsyn.
Samkvæmt heimildum Bloomberg er Citigroup umsjónaraðili viðskiptanna en þau eru fjármögnuð með skuldavafningi þar sem lán írska bankans eru notuð sem trygging.
Vafningnum verður síðan skipt upp og dreift á mismunandi sjóði Golden Tree.
Bank of Ireland er einn af fjórum kerfislega mikilvægu bönkum Írlands en samkvæmt Bloomberg hefur bankinn þurft að draga úr lánastarfsemi sinni.
Heimildarmenn Bloomberg segja viðskiptin hafa verið samþykkt í síðasta mánuði en samkvæmt árshlutauppgjöri Bank of Ireland síðastliðinn fimmtudag stóð eiginfjárhlutfall bankans í 15,6% en spá greinenda gerði ráð fyrir um 14,8% að meðaltali.
Golden Tree hefur verið að kaupa töluvert af evrópskum lánum en félagið keypti fyrr á árinu 4,1 milljarðs evra húsnæðislánasafn Barclays banka á Ítalíu. Kaupin voru einnig fjármögnuð með skuldavafningi.