Bandaríska eignastýringafélagið Golden Tree Asset Mana­gement hefur samþykkt að kaupa 800 milljóna evru lána­safn frá Bank of Ireland Group, sam­kvæmt Bloom­berg.

Sam­svarar það um 120 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins en um er að ræða neyt­endalán til Breta og Íra en að sögn Bloom­berg er írski bankinn að losa lána­safnið af bókum sínum af brýnni nauð­syn.

Sam­kvæmt heimildum Bloom­berg er Citigroup um­sjónaraðili við­skiptanna en þau eru fjár­mögnuð með skulda­vafningi þar sem lán írska bankans eru notuð sem trygging.

Vafningnum verður síðan skipt upp og dreift á mis­munandi sjóði Golden Tree.

Bank of Ireland er einn af fjórum kerfis­lega mikilvægu bönkum Ír­lands en sam­kvæmt Bloom­berg hefur bankinn þurft að draga úr lána­starf­semi sinni.

Heimildar­menn Bloom­berg segja við­skiptin hafa verið samþykkt í síðasta mánuði en sam­kvæmt árs­hluta­upp­gjöri Bank of Ireland síðastliðinn fimmtu­dag stóð eigin­fjár­hlut­fall bankans í 15,6% en spá grein­enda gerði ráð fyrir um 14,8% að meðaltali.

Golden Tree hefur verið að kaupa tölu­vert af evrópskum lánum en félagið keypti fyrr á árinu 4,1 milljarðs evra húsnæðislána­safn Barcla­ys banka á Ítalíu. Kaupin voru einnig fjár­mögnuð með skulda­vafningi.