Danska knattspyrnustórveldið FC Copenhagen hyggst selja allt fasteignasafn sitt, þar á meðal heimavöllinn Parken, sem jafnframt er heimavöllur danska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Bloomberg greinir frá þessu.
Parken Sport & Entertainment A/S, eigandi knattspyrnuliðsins, er eigandi fasteignanna og ætlar félagið að kanna möguleikann á því að selja fasteignir sínar og leigja leikvanginn tilbaka af kaupandanum.
Parken leikvangurinn tekur alls 38 þúsund manns í sæti, en meðal annarra fasteigna sem finna má í eigu Parken Sport & Entertainment eru fjögur skrifstofuhúsnæði í nágrenni leikvangsins, auk tveggja vatsnrennibrautagarða í suður- og vesturhluta Danmerkur.
Í nóvember sl. voru fasteignir félagsins metnar á um 1,9 milljarða danskra króna, eða sem nemur um 37 milljörðum íslenskra króna, í bókum þess.
Til gamans má geta að fjórir Íslendingar eru á mála hjá aðalliði FC Copenhagen. Það eru ungstirnin Ísak Bergmann Jóhannesson, Andri Fannar Baldursson og Hákon Arnar Haraldsson. Þá er að finna fleiri íslenskar vonarstjörnur í unglingaliðum Kaupmannahafnarliðsins.