Bandarískir milljarðamæringar eru nú farnir að selja almenningi sæti um borð í einkaflugvélum sínum með góðum afslætti. Þetta kemur fram á vef WSJ en þar segir að hægt sé að bóka flug í gegnum spjallhóp á forritinu WhatsApp.
Spjallhópurinn er þó eingöngu fyrir boðsgesti en inniheldur engu að síður fleiri þúsund meðlimi. Vinsældirnar hafa aðeins aukist samhliða töfum og öryggisáhyggjum sem hafa hrjáð bandaríska flugiðnaðinn undanfarin misseri.
Flogið er til áfangastaða eins og New York, Palm Beach, Aspen, Suður-Kaliforníu, Texas og Cabo. Meðlimir, sem hyggjast ferðast til einhverra af þessum áfangastöðum, þurfa aðeins að opna spjallforritið og spyrja hvort einhver vilji deila með sér flugvél.
Eigendur þessara einkaþota segjast selja sætin til að standa undir kostnaði vélarinnar. Margir farþegar leitast við að nýta sér þennan valkost til að geta ferðast með meiri lúxus eða einfaldlega vegna þess að þeir eru komnir með nóg af biðröðum við öryggisleit TSA.