Salat- og kryddjurtaframleiðandinn Lambhagi ehf. er til sölu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Hafberg Þórisson garðyrkjumaður stofnaði fyrirtækið árið 1979, sem er nú stærsti framleiðandi og seljandi á fersku salati og kryddjurtum í landinu.

Félagið tapaði 38 milljónum árið 2020. Í ársreikningi segir að félagið hafi tekið í notkun nýja framleiðslulínu á nýjum stað sem hafði nokkur áhrif á kostnaðarverð í upphafi. Gert er þó ráð fyrir að hún auki framlegð félagsins til muna á komandi misserum. Lambhagi hagnaðist samtals um 94 milljónir króna á árunum 2017-2019. Þannig hagnaðist félagið um 24 milljónir árið 2019, 33 milljónir árið 2018 og 37 milljónir árið 2017.

Eik fasteignafélag skrifaði í síðasta mánuði undir samkomulag um helstu skilmála kaupsamnings um allt útgefið hlutafé í Lambhagavegi 23 ehf. og Laufskálum fasteignafélagi ehf. Í atvinnuhúsnæði félaganna fer fram grænmetisrækt Lambhaga og er ákvörðun endanlegs kaupverðs meðal annars háð framkvæmd og niðurstöðu áreiðanleikakannana. Að óbreyttu gæti heildarvirði hins selda í viðskiptunum numið 4,2 milljörðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið en í blaðinu er einnig fjallað um:

  • Sagt frá nýju fjárfestingafélagi Davíðs Helgasonar hér á landi.
  • Rætt við Gylfa Zoega og Bjarna Benediktsson um verðbólguhorfur og framtíð peningastefnunnar.
  • Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur sem takmarka átti fasteignakaup erlendra aðila var breytt á síðustu stundu.
  • Gagnaversfyrirtækið Borealis Data Center er metið á 28 milljarða króna eftir sölu á 63% hlut í félaginu.
  • Fjallað um viðræður um milljarðakaup á nýsköpunarfyrirtæki á Reykjanesi.
  • Týr fjallar um lögmál Jante.
  • Óðinn spyr hvort Hagkaup hafi villst af leið frá stefnunni sem Pálmi Jónsson markaði.
  • Rætt við framkvæmdastjóra Klang games um milljarða fjármögnun í síðustu viku.
  • Studio Fin sérhæfir sig í hreyfigrafík fyrir bíómyndir, sjónvarp og samfélagsmiðla.
  • Rætt við Maren Albertsdóttur nýjan verkefnastjóra hjá Logos.