Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, hefur sent mál Lindarhvols ehf. til embættis ríkissaksóknara til efnislegrar meðferðar. Þetta kemur fram í bréfi sem Sigurður sendi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.
Tæp fimm áru eru liðin frá því að Sigurður var leystur frá embætti setts ríkisendurskoðanda en hann hafði þá sinnt verkefninu í um tvö ár. Líkt og þekkt er tók hann saman greinargerð um málið árið 2018 sem ekki hefur verið birt opinberlega.
Viðskiptablaðið hefur frá árinu 2019 reynt að fá hana afhenta. Ríkisendurskoðun hefur verið mótfallin birtingu greinargerðarinnar og varað við því að það geti skapað ríkinu bótaskyldu. Stjórn Lindarhvols hefur einnig lýst yfir mikilli andstöðu við birtingu greinargerðar Sigurðar.
Sigurður hefur sjálfur furðað sig á þeirri leynd sem hvílir yfir greinargerð sinni. Sem opinber starfsmaður taldi hann sig ávallt hafa gætt hagsmuna ríkisins í sínum störfum.
„Mér leikur forvitni á að vita hvað það er í greinargerðinni sem menn vilja ekki að birtist,“ sagði hann við Viðskiptablaðið fyrir rúmu ári.
Fjármálaráðherra stofnaði Lindarhvol árið 2016 til að selja eignir sem ríkið fékk eftir stöðugleikasamning við slitabú fjármálafyrirtækja, aðrar en hlutabréf í Íslandsbanka sem Bankasýslu ríkisins var falið að annast. Framkvæmd á sölu á eignarhlut ríkisins í Klakka, sem hét upphaflega Exista, er umdeild og hefur fjárfestingarfélagið Frigus staðið í málaferlum við íslenska ríkið og Lindarhvol vegna málsins.