Ráðgjafar- og þjónustufyrirtækið Sessor mun opna starfsstöð í Vestmannaeyjum í næsta mánuði en fyrirtækið starfar á sviði upplýsingatæknimála. Sessor var stofnað árið 2017 og leggur áherslu á að brúa bilið milli rekstraraðila og upplýsingatæknilausna.

Lena María Brynjarsdóttir, sölu- og markaðsstjóri hjá Sessor, segir að með opnuninni munu fyrirtæki á svæðinu fá aðgang að sérhæfðri ráðgjöf í fjármálum, bókhaldi og upplýsingatækni.

Starfsstöðin verður staðsett í Þekkingarsetrinu í Vestmannaeyjum og mun þá Björg Hjaltested, fráfarandi fjármálastjóri Herjólfs, stýra starfseminni þar.

„Til að byrja með verður megináhersla lögð á fjármála- og bókhaldstengda starfsemi en við munum líka bjóða upp á alhliða þjónustu Sessor sem snýr að upplýsingatækni, fjármálum og rekstri í heild sinni,“ segir Lena.

Sessor hefur vaxið töluvert undanfarin misseri og segir Lena að félagið sjái mörg tækifæri á markaðnum. „Það er líka mikið atvinnulíf í Vestmannaeyjum og þar má finna mörg ólík fyrirtæki.“

Lena María Brynjarsdóttir, sölu- og markaðsstjóri hjá Sessor.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hún segir að stefna Sessor sé að færa sig aðeins nær viðskiptavininum en félagið hefur unnið mikið með fyrirtækjum víða um landið.

„Við erum þegar farin að hefja samtöl við mögulega viðskiptavini en við munum þó ekki einblína aðeins á Vestmannaeyjar. Nálgunin með þessari opnun verður að opna dyrnar á Suðurlandið í heild sinni og færa okkur nær þeim hluta landsins.“