Fjár­fest­inga­sjóðurinn Frumtak ásamt hópi fjárfesta hef­ur fjár­fest fyr­ir 330 millj­ón­ir króna í ís­lenska ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæk­inu Moombix, sem stefnir að því að umbylta tónlistarkennslu á netinu og tengja saman nemendur og kennara um allan heim.

Félagið var stofnað af Margréti Júlíönu Sigurðardóttur, frumkvöðli og tónlistarkonu en hún hefur komið að stofnun tveggja nýsköpunarfyrirtækja sem bæði tengjast tónlist. Margrét er tónlistarmenntuð og stundaði meðal annars nám við hinn virta skóla, the Royal Academy of Music í London.

Moombix er markaðstorg og kennslurými fyrir lifandi tónlistarkennslu á netinu, þar sem nemendur geta lært tónlist frá reyndum kennurum og tónlistarfólki hvar sem er í heiminum.

„Má í raun líkja því við AirBnB eða Uber tónlistarinnar. Þar má finna fjölbreytt úrval tónlistarkennara sem kenna ólíkar tónlistagreinar, allt frá kennslu klassískra hljóðfæra til kennslu á tónsmíða- og plötusnúðaforrit,“ segir í fréttatilkynningu.

Moombix segir að horft sé til að gera fullorðnum notendum, sem ekki hafa tíma til að binda sig við hefðbundna tónlistarkennslu en hafa áhuga, að læra tónlist þegar þeim hentar. Hugmyndin sé að tónlistariðkun sé eins konar lífsstíll rétt eins og að fara í jógatíma, læra á gönguskíði, spila golf eða læra tungumál á netinu.

Moombix hóf innreið sína í Bretland síðastliðið vor og bjóða nú um 200 kennarar upp á kennslu en þar á meðal eru tónlistarmenn sem tilnefndir hafa verið til Grammy verðlaunanna, starfað með Massive Attack og Kylie Minogue.

„Við viljum skapa vettvang sem gerir tónlistarnám aðgengilegt fyrir alla, óháð staðsetningu eða reynslu. Moombix er fyrir alla þá sem elska tónlist og vilja dýpka þekkingu sína, taka fyrstu skrefin að læra á hljóðfæri, semja sína eigin tónlist eða reyna fyrir sér sem plötusnúður. Hefðbundin tónlistarkennsla er fyrst og fremst ætluð fyrir börn á skólaaldri og hafa því fullorðnir haft takmarkaða möguleika til að læra. Við viljum koma til móts við þennan hóp, auka aðgengi að tónlistarkennslu og byggja kennsluna meira á forsendum nemendanna", segir Margrét Júlíana Sigurðardóttir, forstjóri og stofnandi Moombix.

Þá horfir Moombix til að bjóða tónlistarkennurum að njóta sveigjanleika við að stjórna sínum eigin kennslustundum, tekjum og kennslutíma.

„Við hjá Frumtaki erum mjög spennt að styðja Moombix í sókn sinni á erlenda markaði. Fyrirtækið hefur möguleika á að geta gjörbylt tónlistarkennslu með auknum sveigjanleika og aðgengi fyrir nemendur og kennara. Með þessu móti er hægt að laða til sín kennara og tónlistarfólk sem vill stjórna sínum tíma sjálft og geta kennt hvar sem er í heiminum“, segir Andri Heiðar Kristinsson, fjárfestingastjóri og meðeigandi Frumtaks Venture.