Kauphöllin í Taílandi hefur ákveðið að setja tímabundið bann á skortsölu og breyta ákveðnum viðskiptareglum til að draga úr sveiflum á markaðnum í ljósi óróa á heimsmörkuðum vegna nýrra tolla bandarískra stjórnvalda.

Bann á skortsölu á öllum verðbréfum, nema í tilviki viðskiptavaktar, og þrengra bil fyrir hreyfingar hlutabréfa verða í gildi frá og með morgundeginum og til 11. apríl í síðasta lagi. Stjórn kauphallarinnar í Taílandi tilkynnti um þetta í morgun eftir að hafa boðað til sérstaks fundar.

Bandaríkin tilkynntu um 36% tolla á Taíland, en það er með hærri tollunum í álfunni. Verðbréfamarkaðir í Taílandi eru lokaðir í dag vegna frídags.

Kauphöllin sagði að með ofangreindum aðgerðum sé stefnt að því að milda mögulegar sveiflur og gefa fjárfestum tækifæri til að huga að viðbrögðum sínum við tollaaðgerðum Bandaríkjanna.

SET vísitalan á hlutabréfamarkaðnum í Taílandi hefur lækkað um 19% það sem af er ári. Í umfjöllun Bloomberg segir að á fáum mörkuðum í heiminum hafi verið eins miklar lækkanir og í Taílandi, jafnvel fyrir blaðamannafund Donald Trump þar sem tilkynnt var um umfangsmikla tolla í síðustu viku.