Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, telur tækifæri til að fara betur með fjármuni hins opinbera þegar kemur að áformum þess um að bæta aðgengi að háhraðanetsambandi um allt land.
„Ef maður horfir á eins og Ísland ljóstengt verkefnið, það mætti vera Netvæðum Ísland. Tæknin í sjálfu sér á ekki að skipta neinu máli, það á frekar að gera kröfu um gæði og hvaða hraði er,“ sagði Margrét í nýjasta hlaðvarpsþætti Pyngjunnar.
„Bara sem dæmi, ef ég set þetta á mannamál, það að grafa skurð inn á hvern sveitabæ – ég vil svo sannarlega að allir hafi aðgang að góðu neti – en það á ekki að skipta máli hvort það sé ljósleiðari eða 5G, bara þannig að við gerum kröfu um að gæðin séu til staðar.“
Töluverður munur væri á kostnaði við lagningu ljósleiðara og að koma upp 5G tækni.
„Þarna væri hægt að nýta peninga betur,“ sagði Margrét og bætti við að uppbygging 5G senda sé mun hraðari framkvæmd.
Annar umsjónarmanna hlaðvarpsins spurði hvort líta mætti á þetta sem vantraust á 5G tæknina af hálfu hins opinbera eða hvort hún sé óstöðugri. Margrét sagði svo ekki vera.
„Þetta er einhver íhaldssemi, held ég. Það var bara ákveðið að fara í þessa tækni og það hefur ekki verið tekin ákvörðun um að breyta því,“ sagði Þórhallur Jóhannsson, fjármálastjóri Nova.
Ríkið setur 340 milljónir í að klára ljósleiðaravæðingu landsins
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti í júlí áform um að klára ljósleiðaravæðingu landsins innan þriggja ára. Ætlað er að áformin muni stuðla að 100% aðgengi fyrir árslok 2026, á grundvelli samvinnu íbúa, sveitarfélaga, fjarskiptafyrirtækja og ríkisins.
Í tilkynningu ráðuneytis hennar í sumar kemur fram að sveitarfélögum yrði gert tilboð um 80.000 króna styrk til að kosta jarðvinnu við að tengja hvert slíkt heimilisfang fyrir árslok 2026.
Áformin eru framhald af verkefninu Ísland ljóstengt hvers markmið var að koma ljósleiðaratengingu í dreifbýlið þar sem markaðsforsendur væru ekki fyrir hendi. Fjarskiptasjóður studdi þar 57 sveitarfélög til að leggja ljósleiðaranet í dreifbýli sínu og er nú svo komið að um 82% lögheimila í dreifbýli hafa aðgang að ljósleiðara.
Um miðjan september staðfestu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og innviðaráðherra samninga fjarskiptasjóðs við 25 sveitarfélög um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026. Skuldbinding ríkisins er um 340 milljónir króna gangi öll uppbyggingin eftir.