Samtök iðnaðarins hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem peningastefnunefnd Seðlabankans er hvött til að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 8,75%. Nefndin mun koma saman í byrjun næstu viku til að taka ákvörðun um stýrivexti.
Helstu rök samtakanna eru þau að stýrivextir hafi, til að byrja með, verið hækkaðir hratt og mikið. Þar að auki taki talsverðan tíma fyrir hækkunina að koma fram í lægri verðbólgu.
Vextir voru síðast hækkaðir um 1,25 prósentustig í maí og höfðu þá verið hækkaðir um átta prósentustig síðan vaxtahækkanaferillinn hófst.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins, segir að verðbólgan sé þegar byrjuð að hjaðna og hafi farið úr 10,2% niður í 7,6% síðan í febrúar á þessu ári. Væntingar séu þá um að hún muni minnka enn meir á næstunni.
„Í könnun sem gerð var meðal aðila á innlendum fjármálamarkaði reikna þeir með því að verðbólga verði komin niður í 5% eftir ár. Það dregur nú úr vexti hagkerfisins og við sjáum merki um það í iðnaðinum. Til dæmis hefur dregið úr því að farið sé í nýjar framkvæmdir vegna þess hvað vextir framkvæmdalána eru orðnir þetta háir og vegna þess að byggingarkostnaður hefur hækkað mikið undanfarið.“
„Rétt væri að Seðlabankinn myndi gefa háum stýrivöxtum tíma til að hafa áhrif á verðbólguna“
Þá hafi atvinnuleysi einnig minnkað og lækkun hefur orðið á húsnæðisverði. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,8% á milli júní og júlí og hefur þá lækkað um 2% á tveimur mánuðum. Tólf mánaða hækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu mælist nú 2,7% samanborið við 25% fyrir ári síðan.
„Boltinn er núna hjá aðilum vinnumarkaðarins en kjarasamningar eru í vetur. Boltinn er þá einnig hjá ríkisstjórninni sem leggur fram fjárlagafrumvarp næsta árs í byrjun október. Rétt væri að Seðlabankinn myndi gefa háum stýrivöxtum tíma til að hafa áhrif á verðbólguna og öðrum aðilum sem koma að hagstjórninni svigrúm til að leggja sitt að mörkum,“ segir Ingólfur.