Það vakti athygli margra þegar niðurstöður nýlegrar kosningakönnunar Viðskiptaráðs voru birtar að Miðflokkurinn sagðist mjög fylgjandi því að afnema ætti tolla á innflutt matvæli.

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins og oddvita hans í Suðvesturkjördæmi, sagði í hlaðvarpsþætti Kaffikróksins, hlaðvarpsþætti Félags atvinnurekenda, að svar flokksins hafi verið leiðrétt en þar hefði Sigríður Á. Andersen, oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, orðið til svara.

Á heimasíðu Viðskiptaráðs má sjá að svari flokksins undir liðnum Afnema ætti tolla á innflutt matvæli hefur verið breytt úr „mjög hlynntur“ í „mjög andvígur“.

„Þegar flokkur vex og stækkar og kemur öflugt fólk úr fleiri áttum inn, má búast við því að í einhverjum atriðum séu sjónarmið mismunandi. En stefna flokksins liggur alveg fyrir,“ sagði Bergþór og ítrekaði mikilvægi tollverndar.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, spurði Bergþór talsvert út í stefnu Miðflokksins um eflingu matvælaframleiðslu, en samkvæmt henni á meðal annars að hækka tolla og segja upp tvíhliða tollasamningi við Evrópusambandið.

Gunnar Bragi fagnaði samningi sem hann hafði ekkert með að gera

Bergþór vildi ekki kannast við að Gunnar Bragi Sveinsson, annar frambjóðandi flokksins, hefði haft nokkuð með gerð tollasamningsins við ESB að gera; það hefði verið Sigurður Ingi Jóhannsson, sem þá var atvinnuvegaráðherra, sem hefði beitt sér fyrir samningnum og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem þá var forsætisráðherra, heyrt af honum í fréttum.

Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins og atvinnuvegaráðuneytisins um samninginn var engu að síður haft eftir Gunnari Braga að samningurinn væri „fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur sem munu sjá þess stað í lækkuðu matvöruverði og útflytjendur sem munu vafalaust nýta sér þá möguleika sem í þessum samningum felast.“

Undanþága afurðastöðvanna víðtækari en menn áttuðu sig á

Ólafur og Bergþór ræddu um breytinguna á búvörulögum, sem Alþingi samþykkti í vor og veitti kjötafurðastöðvum víðtæka undanþágu frá samkeppnislögum. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú dæmt lögin andstæð stjórnarskránni.

Bergþór viðurkenndi að málið hefði tekið miklum breytingum og óheppilegt verið að þær hefðu átt sér stað í meðförum þingnefndarinnar.

„Í þessari breytingartillögu sem meirihluti atvinnuveganefndar gerir, er netinu kastað nokkuð víðar – og í raun kom á daginn kannski miklu víðar – heldur en margir áttuðu sig á,“ sagði Bergþór.

Vilja leyfa netverslun með áfengi og lækka áfengisskatta

Ólafur spurði út í stefnu Miðflokksins varðandi áfengismarkaðinn. Bergþór sagði að fráleitt væri annað en að íslensk fyrirtæki gætu stundað sömu starfsemi og erlend hér á landi. Því ætti að leyfa innlendar netverslanir með áfengi. Íslenskir neytendur gætu átt viðskipti við þúsundir erlendra vefverslana.

„Það er fráleitt að banna íslenskum fyrirtækjum að gera þetta.“

Flokkurinn talaði þó ekki fyrir því að áfengi yrði selt í verslunum. Bergþór sagði hins vegar ástæðu til að lækka áfengisskatta. Ólafur spurði hvort það væru einhver rök fyrir því að Ísland legði tugum prósenta hærri skatta á áfengi en t.d. Svíþjóð eða Finnland. „Ég þekki þau ekki,“ sagði Bergþór.

Heiðar eða Gumundur Fertram stýri einföldun regluverks fyrirtækja

Miðflokkurinn vill að athafnamenn á borð við Heiðar Guðjónsson fjárfesti eða Guðmund Fertram Sigurjónsson í Kerecis verði fengnir til að aðstoða við einföldun regluverks atvinnulífsins.

Ólafur spurði hvernig hægt væri að ná fókus á það verkefni að einfalda regluverk. Bergþór sagði að íþyngjandi regluverk lægi eins og mara á íslensku atvinnulífi og vitnaði til orða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar flokksformanns, um að verkefnið væri þeirrar gerðar að sækja þyrfti öflugt fólk utan stjórnkerfisins til að aðstoða við það.

„Hann tók fram að hann hefði ekki rætt þetta við þá, en nefndi tvö nöfn, eins og Heiðar Guðjónsson og Guðmund Fertram ... Við þurfum að nálgast þetta verkefni með þeim hætti sem þarf. Þá verða menn að vera tilbúnir til að láta slettast á sig tímabundið, en ég held að það verði þannig gagn að því að það verði gott til allrar framtíðar ... þegar starfsfólk fyrirtækja getur hætt að eyða orkunni í eitthvað sem allir vita að engu skilar og farið í að framleiða betri vörur eða á hagkvæmara verði eða veita betri þjónustu eða hvað það er. Að fyrirtækin geti einbeitt sér að því sem er þeirra kjarnastarfsemi.“

Bergþór sagði að til þess að þetta mætti verða, þyrfti að hafa stjórnmálamenn sem hefðu kjark til að klára málin til enda. „Þar höfum við góða sögu að segja af tímabili Sigmundar Davíðs í forsætisráðuneytinu.“

Ólafur og Bergþór ræddu margt annað, meðal annars andstöðu Miðflokksins við innflutning á fersku kjöti og eggjum, fyrirtækjaskatta, niðurskurð ríkisútgjalda, afnám sérréttinda ríkisstarfsmanna og afstöðu flokksins til EES-samningsins og bókunar 35 við samninginn.

Ólafur og Bergþór ræða um svar flokksins í könnun Viðskiptaráðs um afnám tolla á innflutt matvæli frá 6:08-7:45.