Sigvaldi Jóhannesson, betur þekktur sem Silli kokkur, mun opna veitingastað og sælkerabúð undir sama nafni miðvikudaginn 13. desember. Staðurinn verður á Höfðabakka 1 og mun Silli vera með opið frá 11:30 til 23:00 um kvöldið.

Samkvæmt Facebook-síðu kokksins má búast við 145 gestum og hafa tæplega 1.700 aðdáendur sýnt áhuga á að mæta á opnunina, en Silli setti auglýsinguna inn klukkan 18:00 í gærkvöldi.

„Staðurinn er búinn að vera tilbúinn í tæpa tvo mánuði, við erum bara búin að vera bíða eftir leyfi. Ég er annars búinn að vera rosalega mikið með vagninn fyrir utan veitingastaðinn bara til að venja fólk á það hvert það eigi að fara,“ segir Silli.

Aðspurður um hvort hann muni bjóða upp á einhverja nýja rétti á veitingastaðnum segir Silli að hann sé alltaf að leika sér, gera tilraunir og krydda upp á einhverju nýju.

„Þetta er líka minn stærsti tími ársins, það er villibráðin. Við erum með svo mikið af gröfnu og reyktu og alls kyns hátíðarmat, þannig það að ná síðustu tíu dögunum fyrir jól er rosa mikilvægt. Framkvæmdirnar voru líka mjög dýrar þannig nú liggur allt undir að opna.“

Veitingastaðurinn verður opinn í vetur en Silli segist ætla að loka honum 1. júlí og verður hann lokaður fram að verslunarmannahelgi. Á meðan mun hann sinna vagninum sem hefur verið sýnilegur bæði á Höfða og á viðburðum eins og Götubitahátíðinni sem fór fram í sumar.

„Ég er búinn að fara svo marga hringi í kringum landið að ég verð eiginlega að fara aftur til að sinna þeim kúnnum sem ég er kominn með. Svo er vagninn líka tól til að gefa fólki að smakka annars staðar og þá býr maður auðvitað til nýja viðskiptavini,“ segir Silli.