Síminn hagnaðist um 36,3 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi að teknu tilliti til hagnaðar af sölu Mílu. Hagnaður af áframhaldandi starfsemi á fjórðungnum nam 718 milljónum samanborið við 707 milljónir á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu Símans til Kauphallarinnar.

Tekjur Símans á þriðja ársfjórðungi námu 6.210 milljónum samanborið við 6.124 milljónir á sama tíma í fyrra. Farsímatekjur jukust um 9%, gagnaflutningstekjur um 5% og tekjur af sjónvarpsþjónustu jukust um 8%. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 10% á milli ára og nam 1,8 milljörðum.

Síminn heldur kynningarfund fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins kl. 8:30 á morgun í húsnæði félagsins að Ármúla. Tillaga verður lögð fyrir hluthafa um lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa upp á 31,5 milljarða króna vegna sölunnar á Mílu.

Heildarvirði Mílu í viðskiptunum, sem Samkeppniseftirlitið samþykkti í síðasta mánuði, nemur 69,5 milljörðum. Síminn fékk greitt á efndadegi 32,7 milljarða króna í reiðufé og 17,5 milljarða í formi skuldabréfs til þriggja ára. Skuldabréfið er framseljanlegt og ber 4% vexti. Söluhagnaður Símans án áhrifa af skuldabréfi og skattáhrifa er 37,8 milljarðar.

Eignir Símans í lok september voru bókfærðar á 81,5 milljarða króna samanborið við 69,7 milljarða í lok síðasta árs. Eigið fé fjarskiptafélagsins jókst úr 31,1 milljarði í 65,5 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins.

Síminn verði lipurt þjónustufélag

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir í tilkynningunni að undirliggjandi rekstur Símans sé sterkur og í öruggum vexti. Tekjur í farsíma, interneti, og sjónvarpi aukist umfram kostnað. Þá fjallar hann einnig um næstu skref Símans í kjölfar sölunnar á Mílu til franska sjóðastýringafyrirtækisins Ardian.

Tekjur eftir starfsþáttum hjá Símanum. Mynd tekin úr fjárfestakynningu Símans.
Tekjur eftir starfsþáttum hjá Símanum. Mynd tekin úr fjárfestakynningu Símans.

„Síminn umbreytist nú í lipurt þjónustufélag sem mun byggja á léttum efnahag og minnkaðri fjárfestingabyrði. Félagið hefur valið sérhæfða birgja innan lands og utan til að reiða sig á til framtíðar. Festa og sveigjanleiki í viðskiptasamningi félagsins við Mílu eflir Símann í að huga fyrst og fremst að vöruþróun og viðskiptavinum sínum.

Þróun fjarskipta- og sjónvarpsmarkaða á Íslandi hefur einkennst af síaukinni keppni um hylli eftirlitsstofnana fremur en neytenda. Nú þegar sameiginlegt eignarhald Símans og Mílu hefur verið rofið munu ýmsar íþyngjandi kvaðir fortíðar ekki eiga lengur við Símann og samkeppniskraftar virkjast betur í þágu neytenda.“