Öll félög aðalmarkaðar nema eitt hækkuðu á grænum degi Kauphallarinnar í dag, og hækkaði úrvalsvísitalan um 2,16%.

Gengi bréfa Símans hækkaði mest allra í viðskiptum dagsins, um 4,15% í 590 milljóna króna viðskiptum.

Félagið sendi frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar í dag að félagið hefði nú fengið greitt að fullu fyrir Mílu. Annars vegar fékk Síminn 32,7 milljarða króna greiddar í hlutafé og hins vegar 17,5 milljarða í formi skuldabréfa til þriggja ára. Þá kom fram að stjórn Símans ætli að leggja það til á hluthafafundi í lok október að hluthöfum verði greiddur út arður að fjárhæð 31,5 milljarða króna með lækkun hlutafjár.

Tryggingafélögin hækkuðu nokkuð í viðskiptum dagsins. Sjóvá hækkaði um 3,92% í 210 milljóna veltu og Vís um 3,88% í 380 milljóna veltu.

Heildarvelta á markaði nam 4,7 milljörðum króna. Mest velta var með bréf Arion banka, en viðskipti með bréfin námu 760 milljónum króna og hækkaði gengi bréfa félagsins um 2,25%. Næst mest velta var með bréf Kviku banka sem hækkuðu um 2,1% í 630 milljóna viðskiptum.

Á First North hækkaði Play um 1,25%, Kaldalón um 0,6% og Alvotech um tæp tvö prósent. Þá lækkaði Solid Clouds um rúm níu prósent.